Fótbolti

Capello búinn að ákveða byrjunarliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Capello stýrir æfingu enska landsliðsins.
Capello stýrir æfingu enska landsliðsins. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello segir að hann sé búinn að ákveða hvernig byrjunarlið enska landsliðsins verður skipað þegar það mætir því bandaríska á HM á laugardaginn.

„Já, ég er búinn að ákveða mig," sagði Capello. „Ég veit hvaða ellefu leikmenn munu spila á laugardaginn og vona bara að enginn meiðist á æfingu fram að leiknum."

Capello segist vera rólegur þó svo að hann hafi skeytt skapi sínu á ljósmyndurum í æfingabúðum enska landsliðsins í gær.

„Ég skil vel að þessi keppni er Englandi mjög mikilvæg. Liðið hefur bætt sig mjög mikið síðan ég tók við. Það er góð stemning í hópnum, liðið getur spilað eftir mismunandi leikkerfum og leikmenn þekkja mig betur. Ég held að allt hafi breyst."

Það hefur einnig verið mikið fjallað um Wayne Rooney og hvort hann muni hafa stjórn á skapi sínu þegar keppnin sjálf hefst. Capello hefur ekki áhyggjur af honum.

„Hann er að æfa mjög vel og skorar mörk á æfingu sem er mikilvægt fyrir hann. Ég held að hann muni eiga frábæra heimsmeistarakeppni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×