Innlent

Gunnar kynnir sína eigin fjárhagsáætlun

Gunnar Birgisson ætlar að kynna fjárhagsáætlun sína. Mynd/ Anton.
Gunnar Birgisson ætlar að kynna fjárhagsáætlun sína. Mynd/ Anton.
Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs, segir að fjárhagsáætlun meirihlutans sé árás á ungar barnafjölskyldur og íþróttafélögin og hann standi ekki í slíku. Hann vill ganga skemur í skattahækkunum og hefur lagt fram sína eigin fjárhagsáætlun.

Gunnar kynnti áætlun sína fyrir flokksmönnum í morgun og mun leggja hana fyrir í bæjarstjórn á þriðjudag. Loka þarf um 800 milljóna króna fjárhagsgati á næsta ári í Kóapvogi.

Gunnar segir að hugmyndir annarra í bæjarstjórn falli ekki að hugmyndun hans né sjálfstæðisflokksins. „Í hugmyndum þeirra er verið að hækka skatta og þjónustugjöld. Ég geri það hóflega en sker niður meira á móti. Þessi áætlun þessara tíumenninga er árás á ungar barnafjölskyldur í Kópavogi og íþróttafélögin og ég stend ekki að slíku,“ segir Gunnar.

Gunnar vill skera niður meira í aðkeyptri vinnu og innkaupum bæjarins. Þá vill hann fækka starfsfólki, með því að ráða ekki í stöður sem losna. Gunnar segir að þeir sem hlynntir séu sjálfstæðisstefnunni hljóti að hugsa sig um þegar þeir beri saman tillögur hans og meirihlutans. Gunnar segir að Ármann Ólafsson, oddviti flokksins í Kópavogi, hafi ekki viljað taka þátt í áætlunargerðinni með honum.

„Ég hef boðið upp á það hvað eftir annað í flokknum að við stöndum saman að eigin áætlun, þar sem áherslur okkar flokks í gegnum tíðina væru í heiðri hafðar en ekki þessar línur sem virðast vera kóperaðar frá Austurvelli að hækka skatta og þjónustugjöld og skera lítið niður á móti, það er ekki á bætandi álögur á barnafólk í landinu,“ segir Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×