Innlent

Birtir ekki frekari upplýsingar um styrki

Forysta Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur greint frá styrkjum til flokksskrifstofunnar í Valhöll en ekki frá styrkjum til annarra aðildarfélaga. Nú er ljóst að úr því verður ekki.
Forysta Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur greint frá styrkjum til flokksskrifstofunnar í Valhöll en ekki frá styrkjum til annarra aðildarfélaga. Nú er ljóst að úr því verður ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki birta frekari upplýsingar um styrkveitendur sína á árunum 2002 til 2006 en nú þegar hefur verið gert.

Ríkisendurskoðun birti í janúar yfirlit frá flokknum um rúmlega 180 ónafngreinda styrkveitendur flokksins, sem veittu styrki fyrir rúmar 330 milljónir á þessum árum.

Stuttu síðar ræddi Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins, við Fréttablaðið og kom þar fram að enn væru ótaldir styrkir til aðildarfélaga flokksins víða um landið. Þau voru þá um 140 talsins. Í viðtalinu sagði að fara ætti í talsverða vinnu við að nafngreina styrkveitendurna og að greina frá styrkjum til aðildarfélaganna.

Á fimmta tug styrkveitenda Valhallar var svo nafngreindur um vorið á heimasíðu flokksins. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá flokknum verða tölur frá aðildarfélögunum ekki birtar og fullreynt þykir að fá leyfi hinna styrkveitendanna (um 130 talsins) til að birta nöfn þeirra.

„Þetta eru þeir sem féllust á að vera nafngreindir. Við höfum náttúrlega ekki náð í alla, en flesta," segir Sigríður Þorsteinsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn þáði ekki boð blaðsins um að útskýra hví styrkir til aðildarfélaga væru ekki birtir, en þess má geta að flokknum ber ekki lagaleg skylda til að birta neitt af þessum upplýsingum.- kóþ








Fleiri fréttir

Sjá meira


×