Innlent

Er rólegri en vill ekki borða

Úthafskópurinn Golli ásamt fóstra sínum, Georg Skæringssyni, sem hefur annast hann eftir að hann kom til Eyja .mynd/óskar friðriksson
Úthafskópurinn Golli ásamt fóstra sínum, Georg Skæringssyni, sem hefur annast hann eftir að hann kom til Eyja .mynd/óskar friðriksson
Útselskópurinn Golli sem gekk á land við beituskúr í Breiðdalsvík í síðustu viku er kominn til Vestmannaeyja þar sem starfsmenn á Fiska- og náttúrugripasafninu fóstra hann. Kópurinn er ungur, enn á mjólkurstigi, og verður í Eyjum þar til hann er orðinn nógu stór til að vera sleppt á haf út.

„Hann hefur það ágætt greyið þannig séð en er tregur til að borða og það er erfitt að koma fæðu ofan í hann þar sem hann er nautsterkur,“ segir Georg Skæringsson, starfsmaður safnsins og „fósturmamma“ Golla í Vestmannaeyjum.

Stappaður fiskur, blandaður með rjóma og eggjum og slurk af lýsi er settur í sprautu sem Georg segir að sé ærið verk að koma ofan í hann. „Hann geispaði áðan og þá gat ég komið einhverri hálfri sprautu upp í hann en annars vill hann ekki sjá fóðrið. Það er hins vegar ekkert annað í boði en að halda áfram að reyna að gefa honum að borða til að gera hann tilbúinn fyrir að fara út á sjó síðar meir. Við vitum ekki hversu langur tími það verður, enda fylgdi ekkert fæðingarvottorð með honum.“

Kópurinn gerði vart við sig á Breiðdalsvík með gráti og Georg segir að Golli hafi grátið mikið fyrst eftir að hann kom en sé orðinn rólegri. „Ég má klóra honum núna og klappa og það er mikill munur á honum en það væri óskandi að hann vildi borða.“ - jma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×