Innlent

Vilja tvo stóra dómsali í húsi Silla og Valda

Héraðsdómur Reykjavíkur mun breiða úr sér í miðborginni þegar hluti starfsemi hans færist yfir í Austurstræti 17. Húsið er í dag oft kennt við 10-11 enda slík verslun á jarðhæðinni. Lengst af var það nefnt eftir kaup- og athafnamönnunum Silla og Valda sem létu reisa það og ráku í því verslun. Ferðaskrifstofan Útsýn var lengi á annarri hæðinni. Húsið var tekið í gagnið 1965.
Héraðsdómur Reykjavíkur mun breiða úr sér í miðborginni þegar hluti starfsemi hans færist yfir í Austurstræti 17. Húsið er í dag oft kennt við 10-11 enda slík verslun á jarðhæðinni. Lengst af var það nefnt eftir kaup- og athafnamönnunum Silla og Valda sem létu reisa það og ráku í því verslun. Ferðaskrifstofan Útsýn var lengi á annarri hæðinni. Húsið var tekið í gagnið 1965. Mynd/GVA

Lausn á hluta húsnæðisvanda Héraðsdóms Reykjavíkur er í augsýn.

Í bígerð er að dómurinn leigi eina hæð í Austurstræti 17 og leysi með því þörfina fyrir bætta starfsaðstöðu dómara, aðstoðarmanna og dómritara.

Húsið er sambyggt húsi Héraðsdóms við Lækjartorg. Er ætlunin að opna á milli húsanna enda augljósir kostir því samfara.

Nauðsyn stærri húsakosts dómsins helgast af stórauknu álagi eftir fall bankanna. Er fyrirséð að mörg dómsmál, stór og smá, verði höfðuð vegna hrunsins. Þegar hefur fjöldi mála borist vegna ágreinings um kröfur í bú bankanna og ljóst að slíkum málum mun fjölga. Þá eru yfirvofandi stór mál í framhaldi af rannsóknum sérstaks saksóknara.

Til að mæta auknu álagi dómsins hefur dómurum verið fjölgað og samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra á að fjölga þeim enn frekar.

Helgi I. Jónsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir að húsnæðið í Austurstræti muni mæta þörfinni fyrir skrifstofur en eftir standi vandi varðandi dómsali. Hans mat sé að þörf verði fyrir tvo nýja sali sem þyrftu að vera stærri en stærsti salur dómsins í dag, salur 101.

„Það liggur svo sem ekki fyrir hvað margir verða í hverju máli en það þarf að vera aðstaða fyrir verjendur og sakborninga og svo má gera ráð fyrir að það verði einhver fjöldi áhorfenda. Það þarf líka að koma til móts við þær þarfir," segir Helgi.

Helgi I. Jónsson

Aðspurður segir hann ekkert liggja fyrir um hvar viðbótardómsalirnir geti verið. Nú verði farið að horfa til þess. Hentugt væri að hafa þá í miðborginni, nærri höfuðstöðvum dómsins.

Útlit er fyrir að þörf verði fyrir nýju dómsalina tvo á síðari hluta næsta árs.

Nú starfa 25 dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur. Fleiri bætast við, verði frumvarp dómsmálaráðherra að lögum. Er enn frekari fjölgun dómara áformuð þegar fram í sækir.

Helgi segir að þegar stóru málin frá sérstökum saksóknara komi til meðferðar kalli það á að margir dómarar verði uppteknir í einu máli í marga mánuði. Þeir sinni ekki öðru á meðan.

bjorn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×