Innlent

Aðildarviðræðunum verði haldið áfram

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram og stefnt á að ná sem bestum samningi.

Þorgerður Katrín skrifar um Evrópumálin í Morgunblaðinu í dag. Hún greiddi atkvæði með aðildarviðræðunum á sínum tíma á Alþingi og segir að meiri sátt hefði verið um umsóknina ef farið hefði verið að tillögu sjálfstæðismanna um þjóðaratvæðagreiðslu um hvort viðræður skyldu hafnar.

Þorgerður segir í samtali við fréttastofu af nógu að taka við lausn efnahagsvandans og skuldavanda heimilanna og stjórnmálaflokkarnir ættu því ekki að eyða orku í að rífast um hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

„Við verðum líka að koma fram með ábyrgum hætti á sviði utanríkismála og náttúrulega í öllum málaflokkum en ekki síst í utanríkismálum. Við eigum ekki að sína hringlandahátt í alþjóðastjórnmálum," segir Þorgerður.

Hún telur að enn sé meirihluti á Alþingi fyrir því að ljúka aðildarviðræðunum og telur fráleitt að hægt sé að ljúka viðræðunum á tveimur mánuðum eins og Ögmundur Jónasson hefur stungið upp á.

„Mér finnst þetta vanhugsuð tillaga og frekar sett fram í þeim tilgangi hjá Ögmundi að tala í þann hóp sem kallaður er órólegadeildin. Ég held að þjóðin verði að vera hið endanlega úrskurðarvald í málinu og hún getur það ekki nema hún fái heilstæðamynd af samningnum," segir Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×