Innlent

Fylgja Cantona og ætla að gera áhlaup á bankana

Hátt í 300 Íslendingar ætla að gera áhlaup á bankana 7. desember og fylgja þannig frönsku fótboltagoðsögninn Eric Cantona, sem óafvitandi hleypti af stað alþjóðlegri bankabyltingu í Youtube viðtali nýverið.

Íslenski hópurinn sem ætlar að gera áhlaup á bankana var stofnaður á Facebook og kveðst þar ætla að fara í bankana og taka út peninga sína þann 7. desember. En Íslendingar eru ekki einir því samskonar hópar hafa verið stofnaðir í fjórtán löndum, þar á meðal Frakklandi, Grikklandi, Ítalíu, Englandi og Danmörku.

Eins og segir á síðunni kviknaði hugmyndin í Frakklandi og eftir því sem fram kemur á erlendri viðskiptafréttasíðu var það fótboltagoðsögnin Eric Cantona sem óafvitandi hleypti af stað þessari alþjóðlegu fjöldahreyfingu, eftir að hann lét meðal annars þessi orð falla í óformlega Youtube viðtali

„Þetta þýðir að þær þrjár milljónir manna sem eru með mótmælaspjöld úti á götu fara í bankana og taka peningana sína út og bankarnir falla," segir Cantona í viðtalinu.

„Engin vopn, ekkert blóð eða neitt þvíumlíkt. Þetta er ekki flókið. Og í þessu tilfelli munu þeir hlusta á okkur á annan hátt."

Eftir það hafa nærri 15 þúsund Frakkar skráð sig og lýst því yfir að þeir hyggist taka allt sitt fé út úr bönkum í sameiginlegu áhlaupi eftir tæpar tvær vikur. Yfirlýsing hópsins sem stendur að baki áhlaupsins og viðtalið við Cantona er á slóðinni bankrun2010.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×