Innlent

Óheimilt að eigna drykknum lækningarmátt

Bónus Engifer heilsudrykkur með mintu & lime hefur verið innkallaður af Matvælastofnun þar sem á umbúðum drykkjarins er hann sagður lækna og fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma.

„Samkvæmt reglugerð um merkingu matvæla er óheimilt að eigna matvælum þá eiginleika að fyrirbyggja eða vinna á sjúkdómum manna, hafa lækningarmátt eða að vísa til þess háttar eiginleika. Fullyrðingar á umbúðum vörunnar eins og „læknar magakveisu", „linar höfuðverk", „slær á bólgu og gigtarverki", „linar hálsbólgu og hósta" eru taldar brjóta í bága við þetta ákvæði," segir á vef Matvælastofnunar.

Einnig eru á umbúðum heilsufullyrðingar eins og „örvar meltingu", „hefur vatnslosandi áhrif", „lækkar kólesteról" sem ekki hafa verið heimilaðar og því taldar brjóta í bága við reglugerð um heilsu- og næringarfullyrðingar.

Vakin skal athygli á því að ekki er verið að innkalla vöruna vegna þess að hún sé ekki talin örugg til neyslu. Matvælastofnun hefur engar upplýsingar um að ástæða sé til að telja að svo sé.

Stutt er síðan engiferdrykkurinn aada frá My Secret var innkallaður vegna ólöglegra heilsufullyrðinga á umbúðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×