Innlent

Rann á döðlum í Hagkaup - skaðabótaábyrgð viðurkennd

Valur Grettisson skrifar
Hagkaup. Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Hagkaup. Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á það í dag að Hagar væru skaðabótaskyldir vegna konu sem rann á döðlum í Hagkaup árið 2005.

Konan var að versla í Hagkaup á Seltjarnarnesi þegar hún steig ofan á döðlu, sem var á gólfi verslunarinnar, og rann við það og skall með vinstra hnéð í gólfið.

Í dómsorði segir að konan hefði verið flutt á bráðamóttöku til aðlhynningar vegna slyssins. Konan starfaði í þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar og var óvinnufær í tíu daga eftir slysið.

Hagar mótmæltu kröfunni ásamt tryggingafélagi sínu, Sjóvá. Forsvarsmenn Haga vildu meina að ógerningur væri fyrir starfsfólk og rekstraraðila verslana að koma alfarið í veg fyrir slíkt tjón, jafnvel þótt fyllsta aðgæsla væri viðhöfð við þrif og eftirlit. Væri því um óhappatilvik að ræða.

Á þetta fellst dómur ekki á og segir í niðurstöðu hans að ávaxta- og grænmetisdeild verslunarinnar væri við innganginn og þurfa allir viðskiptavinir að ganga þar í gegn.

Mátti konan því gera ráð fyrir, að leiðin inn í verslunina væri hættulaus.

Verður henni ekki virt það til eigin sakar, að hafa ekki haft augun á gólfinu þegar hún gekk um ávaxtadeildina. Samkvæmt upplýsingum þáverandi verslunarstjóra, sem kvaðst reyndar ekki hafa verið á vakt umrætt sinn, var ekki að finna neina aðvörun til viðskiptavina um að gólfið gæti reynst hált eða varasamt af völdum matvæla eða af öðrum orsökum.

Skaðabótaskyldan er því viðurkennd. Þá þurfa Hagar að standa straum af málskostnaði konunnar sem eru 740 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×