Innlent

Benedikt gerir sína fyrstu kvikmynd

„Myndin á að vera óður til skepnunnar sem hefur reynst okkur svona vel og er réttnefnt skip hálendisins," segir Benedikt.
„Myndin á að vera óður til skepnunnar sem hefur reynst okkur svona vel og er réttnefnt skip hálendisins," segir Benedikt. Mynd/Teitur.

„Þetta er tvö hundruð milljóna króna mynd sem fjallar um samskipti manna og hesta, það er að segja manninn í hestinum og hestinn í manninum," segir Benedikt Erlingsson, leikari og nú brátt kvikmyndaleikstjóri.

Næsta vor hefjast tökur á fyrstu kvikmynd Benedikts í fullri lengd sem hefur verið gefið vinnuheitið Hross um oss. Benedikt hefur þegar fengið leikarann Ingvar E. Sigurðsson og eiginkonu sína Charlotte Bøving til að leika stór hlutverk í myndinni en hún samanstendur af sex dæmisögum sem allar fléttast saman með einum eða öðrum hætti.

„Þetta eru miklar og dramatískar frásagnir sem fjalla um samskipti manna og hesta og hvernig mannfólkið reynir að beisla náttúruna. Og þær enda annaðhvort með dauða knapans eða hrossins," útskýrir Benedikt en myndin á að gerast árið 1985. „Þegar fólk gekk enn í flottum fötum og notaði ekki hjálm," áréttar Benedikt.

Leikstjórinn er mikill áhugamaður um hesta þótt hann vildi kannski vera meiri hestamaður en hann er. „Við Íslendingar erum fyrst og fremst hestaþjóð, við erum ekki siglingaþjóð. Eina verkkunnáttan sem hefur viðhaldist er umgengni við hesta, þetta er þúsund ára arfur. Við erum allavega ekki bankafólk eða verslunarmenn," segir Benedikt sem hefur unnið að gerð handritsins í tíu ár.

„Myndin á að vera óður til skepnunnar sem hefur reynst okkur svona vel og er réttnefnt skip hálendisins." - fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×