Fótbolti

Xavi: Hinar fullkomnu kringumstæður fyrir Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez gat ekki leynt svekkelsi sínu í fyrri leiknum.
Xavi Hernandez gat ekki leynt svekkelsi sínu í fyrri leiknum. Mynd/AFP
Evrópumeisturum Barcelona bíður erfiður leikur á morgun á móti Inter Milan í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Inter vann fyrri leikinn 3-1 og þarf því Barcelona að vinna 2-0 eða stærra annað kvöld.

„Þeim líkar best að spila þegar þeir eru yfir. Ítalski fótboltinn er alltaf eins og hann breytist ekkert. Þeir vilja verjast aftarlega og sjá til að andstæðingarnir fái ekki pláss til að vinna með," sagði Xavi Hernandez, miðjumaður Barcelona.

„Þetta eru hinar fullkomnu kringumstæður fyrir Inter en Barca verður bara að spila Barca-boltann sem liðið hefur verið að spila undanfarin ár," sagði Xavi.

Barcelona komst síðast áfram árið 2000 þegar liðið var í sömu stöðu og nú. Barcelona tapaði þá 3-1 á móti Chelsea í fyrri leiknum í átta liða úrslitum en vann seinni leikinn 5-1 eftir framlengingu á Camp Nou og tryggði sér sæti í undanúrslitunum.

Það voru þeir Rivaldo og Patrick Kluivert sem skoruðu mörkin tvö í framlengingunni sem komu Barcelona-liðinu áfram en Norðmaðurinn Tore André Flo hafði skorað tvö mörk í fyrri leiknum og minnkað muninn í 2-1 á Camp Nou.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×