Fótbolti

Íhuga að banna vuvuzela-lúðrana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmaður enska landsliðsins blæs í vuvuzela-lúður.
Stuðningsmaður enska landsliðsins blæs í vuvuzela-lúður. Nordic Photos / Getty Images
Skipuleggjendur heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku íhuga nú hvort banna eigi vuvuzela-lúðrana á leikjum keppninnar.

Hljóðið sem berst frá lúðrunum yfirgnæfa allt annað hljóð frá áhorfendum og hafa borist kvartanir vegna þessa frá sjónvarpsáhorfendum víða um heim.

Danny Jordaan, yfirmaður skipulagsnefndar HM 2010, sagði í samtali við fréttastofu BBC að til greina kæmi að banna lúðrana.

„Ef það eru gildar ástæður þá munum við banna þá. Við höfum áður sagt að ef lúðrunum verði kastað inn á völlinn þá munum við grípa til aðgerða," sagði Jordaan.

Patrice Evra, fyrirliði franska landsliðsins, kenndi lúðrunum um lélega frammistöðu liðsins í leiknum gegn Úrúgvæ á föstudaginn.

„Við gátum ekki sofið fyrir vuvuzela-lúðrunum. Fólk byrjar að blása í þá klukkan sex á morgnana. Á vellinum heyrum við ekkert hvað næsti maður segir vegna þeirra."

Jordaan viðurkennir að hann sé ekki hrifinn af lúðrunum. „Ég vildi frekar heyra söng stuðningsmannanna. Það hefur alltaf skapað góða stemningu á leikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×