Fótbolti

Lampard hefur trú á að Green komi til baka

Elvar Geir Magnússon skrifar
Robert Green í gríninu.
Robert Green í gríninu.

Frank Lampard hefur trú á því að mistök Robert Green í leik Englands og Bandaríkjanna í gær muni gera það að verkum að Green rísi upp og verði traustur sem eik það sem eftir lifi HM.

„Þetta var óheppilegt. Boltarnir eru mikið á ferðinni og breyta um stefnu. Ég veit ekki hve mikið boltinn flökti í þessu tilfelli," sagði Lampard en mistök Green kostuðu England tvö stig.

„Við finnum til með Greeny því við erum lið. Við vinnum, töpum og gerum jafntefli sem lið. Þegar markmenn gera mistök eru þau meira áberandi en ef útispilarar gera mistök á miðjum velli."

„Við gerum hann ekki að sökudólg. Hann varði vel í seinni hálfleiknum. Hann er með persónuleika til að koma til baka. Greeny er sannur atvinnumaður," sagði Lampartd.

Bob Wilson, fyrrum markvörður Arsenal, segir að ekki sé hægt að afsaka mistökin hjá Green. Hann gagnrýnir þá ákvörðun Fabio Capello að tilkynna byrjunarliðið aðeins tveimur klukkutímum fyrir leik.

„Hvenær tók Capello ákvörðun um hver ætti að standa í markinu? Ég tel að markvörður þurfi allavega sólarhring í undirbúning. Það tryggir samt ekki að markvörðurinn geri ekki mistök. Það er allavega ljóst að England hefur ekki Peter Shilton, Gordon Banks eða David Seaman," sagði Wilson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×