Innlent

Einn stærsti myndabanki veraldar í mál við Barnaland

Valur Grettisson skrifar
Skjáskot af heimasíðu Barnalands.
Skjáskot af heimasíðu Barnalands.

Einn stærsti myndabanki veraldar, Getty images international ltd., hefur stefnt eignarhaldsfélaginu Fronti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, vegna notkunar á myndum sem forsvarsmenn Gettys vilja meina að Frontur hafi ekki greitt fyrir.

Frontur er meðal annars eigandi Barnalands, dýralands og er.is. Allar þessar síður hafa notið talsverðra vinsælda hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni myndabankans krefst fyrirtækið tveggja til þriggja milljóna í skaðabætur vegna notkunar á 10 til 15 myndum sem eiga að hafa birst í leyfisleysi á vefjum Fronts.

Myndirnar sem um ræðir hafa meðal annars verið notaðar í útlitshönnun á vefjunum.

Umboðsaðili Gettys hér á landi er Nordic Photos. Einn af forsvarsmönnum þeirra er Arnaldur Gauti Johnson. Hann sagði í samtali við Vísi að það var ísraelsk fyrirtæki, sem sérhæfir sig í að leita uppi myndir fyrir myndabanka, sem fann myndirnar.

Arnaldur segir tvö fyrirtæki í Ísrael sérhæfa sig í að finna myndir fyrir alþjóðlega myndabanka. Í hverri mynd má finna nokkurskonar fingraför sem eftirlitsaðilarnir leita að og bera saman við myndirnar sem finna má í myndabönkunum. Komi í ljós að það hafi ekki verið greitt fyrir þær, má sá sami búast við að fyrirtækið hafi samband og krefjist greiðslu fyrir myndina.

Þetta mál er eitt það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Arnaldur segir þetta þó í takt við það sem er að gerast í öðrum löndum en myndabankar eru farnir að gæta þess með öllum tiltækum ráðum að myndir þeirra séu ekki notaðar í leyfisleysi.

„Sumir myndabankar eru núna með sérstök lögfræðisvið sem eru á fullu í þessu," segir Arnaldur um þá þróun sem hefur átt sér stað á síðustu tveimur árum. Aðspurður hvort bloggarar og aðrir einstaklingar megi fara að gæta sín svarar Arnaldur því til að einstaklingar með heimsíður þurfi vissulega að fara gæta sín á því hvaða myndir þeir nota.

Myndirnar sem myndabankarnir selja eru meðal annars í eigu ljósmyndara og það er verið að verja þeirra rétt með þessum aðgerðum.

Arnaldur tekur fram að það sé ekki langt síðan eitt eftirlitsfyrirtækið barðist fyrir því að fá klásúlu inn á Google-leitarvélina þar sem sérstaklega væri tekið fram að myndirnar, sem þar er að finna, gætu verið varin höfundarrétti.

„Sumir halda að myndir á Google séu bara ókeypis en þannig er það náttúrulega ekki alltaf," segir Arnaldur.

Það er bandaríska fyrirtækið Hellman & Friedman sem á Getty en þeir keyptu það árið 2008 fyrir 2,4 milljarða dollara.

Frontur hefur farið fram á að málinu verði vísað frá dómi og verður úrskurður um það kvaddur upp í dag.

Ekki náðist í eiganda Front við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×