Innlent

Starfsfólki brá við ránið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Þeir ættu nú að þekkjast þessir gaurar og það held ég að sé nú bara tímaspursmál hvenær þeir nást," segir Sævar Jónsson, eigandi Leonard, um tvo menn sem rændu úrum úr verslun hans í Kringlunni síðdegis í dag. „Þeir voru ekkert að fela sig mikið," segir Sævar.

Sævar segir að fólki hafi verið mjög brugðið vegna ránsins, þótt mennirnir hafi ekki ógnað neinum. „Þetta eru hlutir sem eru ekkert að gerast dagsdaglega þannig að þetta er eitthvað sem fólk á ekki von á," segir Sævar í samtali við Vísi.

Hann segir að ræningjarnir hafi greinilega verið undirbúnir því að allir starfsmennirnir hafi verið staddir innarlega í versluninni þegar að ránið var framið. Mennirnir hafi síðan brotist inn í skáp sem var fremst í versluninni og hirt úrin þaðan. Áætlað er að verðmæti þeirra sé um fimm milljónir króna.

Sævar segir að mennirnir hafi ekki verið í versluninni nema í mesta lagi fimmtán til tuttugu sekúndur. Einn starfsmaður hafi hlaupið á eftir þeim en misst af þeim við gamla Morgunblaðshúsið.

Hér að neðan má sjá myndir af ræningjunum koma inn í verslunina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×