Enski boltinn

Van der Vaart missir af leiknum gegn Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael van der Vaart er hann meiddist um helgina.
Rafael van der Vaart er hann meiddist um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Rafael van der Vaart mun ekki spila með Tottenham þegar liðið tekur á móti Evrópumeisturum Inter frá Ítalíu í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Þetta er mikið áfall fyrir Tottenham enda Van der Vaart verið frábær með liðinu í haust.

Þar að auki eru þeir Michael Dawson, Jermain Defoe og Ledley King allir frá vegna meiðsla og Heurelho Gomes tekur út leikbann á morgun.

„Vandamálið er að fimm af mínum allra bestu leikmönnum eru meiddir," sagði Redknapp í samtali við fréttamenn í morgun. „Markvörðurinn er í banni, tveir miðverðir meiddir og svo eru Van der Vaart og Defoe frá. Þetta er hryggjarstykkið í liðinu og ég á því von á að þetta verði mjög erfitt."

Van der Vaart meiddir í leik United og Tottenham um helgina en hann tognaði á vöðva aftan á læri.

„Van der Vaart er góður leikmaður en ég held að hann hafi orðið of þreyttur og það er þá sem leikmenn meiðast."

„Hann hefur ekki oft spilað 90 mínútur í leik. Hann gerði það ekki með hollenska landsliðinu á HM í sumar og því vill það verða erfitt fyrir hann að klára síðustu 25 mínúturnar í hverjum leik."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×