Innlent

Byggt við Hnitbjörg til að bæta aðgengi gesta

Júlíana Gottskálksdóttir
Júlíana Gottskálksdóttir
Listasafn Einars Jónssonar undirbýr nú byggingu tengihúss á austanverðri lóð safnsins á Skólavörðuholti. Studio Grandi hefur hannað frumgerð að viðbyggingunni.

Júlíana Gottskálksdóttir, forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar, segir ekki tímabært að greina frá því hverjar séu fyrir­ætlanir safnsins. Í tillögu sem send var skipulagsyfirvöldum í Reykjavík kemur hins vegar fram að unnið hafi verið að málinu síðan vorið 2008.

„Niðurstaðan er sú að raunhæfasti kosturinn sé að byggja við austurálmu, á milli aðalhúss og garðhúss. Viðbyggingin er því tengibygging en jafnframt annar inngangur í safnið fyrir hreyfihamlaða og þá sem koma frá garði til dæmis hópa. Í húsinu verður jafnframt nauðsynleg aðstaða sem nú vantar í safnið,“ segir í greinar­gerð.

Borgarminjavörður segir nýbygginguna taka tillit til beggja húsanna á lóðinni og til umhverfis­ins. Húsafriðunarnefnd segir viðbygginguna falla vel að byggingar­list safnsins og að hún sómi sér einnig sem sjálfstætt höfundarverk.

Hnitbjörg eru friðuð. Elsti hluti hússins var reistur 1916 en hliðar­salirnir báðir voru ekki komnir fyrr en 1937. Laust eftir síðari heimsstyrjöldina var síðan byggt garðhús við austurmörk lóðarinnar. Það hús þjónar sem skrifstofa starfsmanna listasafnsins. Nýja viðbyggingin á að tengja þetta garðhús við aðalbygginguna.

„Efnisnotkun verður sótt í það sem fyrir er á staðnum, skeljasandssteining eins og Hnitbjörg, grásteinsklæðning í framhaldi af mosavöxnum garðhleðslum auk koparklæðningar, viðar, sjónsteypu og glers,“ segir í greinargerð með tillögunni þar sem ítrekað er að núverandi hönnun sýni form og umfang tengibyggingarinnar aðeins í grófum dráttum.

Fram kemur að áhersla sé lögð á að aðalinngangurinn í Hnitbjörg haldi sér: „En vegna aðgengis hreyfihamlaðra er opnuð leið eftir hallandi gangstíg niður að nýrri tengibyggingu og þaðan inn á neðri hæð safnsins. Aðkoma frá garði er sömuleiðis um tengibyggingu inn í afgreiðslu og safnbúð, en þar til hliðar er salernisaðstaða og fatahengi. Aðrir húshlutar eru lítill sýningarskáli næst garðhúsi og stærra rými meðfram austurmörkum lóðar fyrir geymslu verka og vinnuaðstöðu.“ gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×