Fótbolti

Auðveldast að mæta Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jonathan Spector ræðir við blaðamenn.
Jonathan Spector ræðir við blaðamenn. Nordic Photos / AFP

Jonathan Spector, leikmaður bandaríska landsliðsins, segir að leikurinn gegn Englandi á morgun verði sá auðveldasti í riðlinum.

Spector leikur með West Ham á Englandi og segir að það sé engin pressa á bandaríska liðinu í leiknum.

„Maður fær heldur betur að monta sig á næsta tímabili ef okkur tekst að vinna þennan leik," sagði Spector í samtali við enska fjölmiðla.

„Þetta er auðveldasti leikurinn okkar í riðlinum því það er engin pressa á aokkur. Það býst enginn við því að við fáum eitthvað úr þessum leik en það verður pressa á okkur í hinum tveimur leikjunum," bætti hann við.

Bandaríkin kom flestum á óvart í Álfukeppninni á síðasta sumri er liðinu tókst að vinna Spánverja í undanúrslitum keppninnar. Liðið tapaði svo fyrir Brasilíu í úrslitaleiknum.

„Það er sjálfstraust í liðinu þó svo að það fari ekki hátt," sagði Spector. „Það býst enginn við neinu í Bandaríkjunum og þær væntingar sem eru gerðar til okkar koma frá okkur sjálfum."

„En okkur hefur tekist að fanga athygli almennings í Bandaríkjunum og við viljum viðhalda því með því að standa okkur vel á HM."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×