Fótbolti

Gylfi Þór tryggði Hoffenheim jafntefli með marki í uppbótartíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór skorar úr víti.
Gylfi Þór skorar úr víti. Nordic Photos / Bongarts

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fimmta mark í þýsku úrvalsdeildinni í dag og tryggði um leið sínum mönnum í Hoffenheim jafntefli gegn Leverkusen, 2-2.

Gylfi kom inn á sem varamaður á 74. mínútu og skoraði markið úr víti á fjórðu mínútu uppbótartímans.

Leverkusen komst í 2-0 á fyrstu tíu mínútum leiksins en Vedad Ibisevic minnkaði muninn fyrir Hoffenheim á 38. mínútu.

Gylfi fékk svo ágætt tækifæri á 83. mínútu til að jafna metin en skaut þá framhjá marki Leverkusen.

Þetta var fyrsta mark Gylfa með Hoffenheim í tæpan mánuð, eftir að hann skoraði tvö í 4-0 sigri á Hannover þann 31. október.

Gylfi hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu og missti af landsleiknum gegn Ísrael fyrr í þessum mánuði af þeim sökum.

Dortmund er á toppi deildarinnar með 34 stig en Hoffenheim í því sjötta með 22 stig. Dortmund á leik til góða gegn Gladbach síðar í dag.

Leverkusen er í þrijða sæti með 26 stig.

Bayern vann 4-1 sigur á Frankfurt og er komið upp í fimmta sætið með 23 stig.

Ekki minnkuðu vandræði Schalke í dag en liðið tapaði fyrir Kaiserslautern, 5-0.



Úrslit dagsins:


Bayern - Frankfurt 4-1

Hamburg - Stuttgart 4-2

Hannover - Freiburg 3-0

Hoffenheim - Leverkusen 2-2

Kaiserslautern - Schalke 5-0








Fleiri fréttir

Sjá meira


×