Erlent

Nautum hleypt á graða Breta

Óli Tynes skrifar
Munu menn þá eiga fótum fjör að launa.
Munu menn þá eiga fótum fjör að launa.

Með illu skal illt út reka. Þetta er niðurstaða bæjarstjórnarinnar í breska smábænum Puttenham. Íbúar þar eru um 2500 talsins og bærinn er klukkustundar akstur frá Lundúnum. Það er nálægðin við syndabælið höfuðborgina sem veldur íbúum í Puttenham hugarangri. Þaðan streymir nefnilega fólk til að stunda það sem kallað er „Dogging." Þetta fyrirbæri felst í því í stuttu máli að hafa mök utan dyra að öðrum ásjáandi. Oft er það jafnvel fólk sem er að hittast í fyrsta skipti en hefur mælt sér mót á netinu.

Við Puttenham eru bleikir akrar og slegin tún og þar þykir fólki gott að stunda ástarleiki, íbúunum til mikillar armæðu. Jules Perkins segir að á góðum degi megi sjá óteljandi rassa ganga upp og niður á ökrunum. Hún segir í blaðinu Puttenham Journal frá gönguferð þar sem hún kom að tveimur allsberum karlmönnum sem sátu og horfðu á mann og konu í samförum. Rétt þar hjá voru allsberir karlar í sólbaði. Og í runna fann hún bleikan titrara sem hún afhenti lögreglunni.

„Þeir spurðu hvað í ósköpunum þeir ættu að gera við hann. Ég sagði þeim að setja hann bara í tapað fundið. Við erum heiðarlegt fólk í þessari sveit."

Opinberar samfarir eru hálf-löglegar í Bretlandi. Þar er aðeins talið lögbrot ef einhver sem sér það móðgast og er reiðubúinn að leggja fram formlega ákæru. Íbúum í Puttenham finnst þeir hafa séð nóg og hafa krafið bæjarstjórnina um aðgerðir. Hún tregðaðist lengi við en telur sig nú hafa fundið mögulega lausn. Akrarnir eru flestir afgirtir og lausnin felst í því að sleppa þar stórum nautum. Íbúi í Puttenham er þó ekki á því að málið verði leyst þannig.

„Þetta er hlægilegt. Halda þeir virkilega að hópur af perrum missi lystina af því að það eru naut í grendinni? Þeir yrðu sjálfsagt bara enn graðari."

Á það reynir tæpast fyrr en næsta sumar. Það er nú svo kalt í Bretlandi að jafnvel hörðustu doggarar halda sig innan dyra.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×