Innlent

Töluverður gosórói í nótt

Töluverður gosórói.
Töluverður gosórói. Egill

Nokkuð jafn gangur virðist hafa verið í gosinu á Fimmvörðuhálsi í alla nótt samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.

Töluverður gosórói hefur verið á mælum Veðurstofunnar í nótt og farið heldur vaxandi nú undir morgun. Margt fólk hefur verið á ferð við gosstöðvarnar og hefur verið nokkuð um það að fólk væri að fara vestur og norðurfyrir þær þrátt fyrir að varað hafi verið við því að vera þar á ferð.

Hraun getur farið að renna í vestara Hvannárgil hvenær sem er og fólk þá lokast inni norðanvið hraunstrauminn.

Mikil umferð hefur verið á Suðurlandi í alla nótt. Frá miðnætti hafa tæplega 2400 bílar farið um Hellu og um 700 bílar farið um veginn undir Eyjafjöllum. Minnt er á að vegurinn um innanverða Fljótshlíð er mjór malarvegur og vegfarendur eru hvattir til að aka þar með gát og flýta sér hægt.

Að endingu er fólk enn og aftur minnt á að sýna aðgæslu við eldstöðvarnar. Eldgos eru hættuleg og þó menn telji sig vera farna að sjá einhverja reglu í hegðan gossins eftir að hafa fylgst með því dálitla stund þá eru alltaf líkur á óvanalegum atburðum í náttúruhamförum af þessu tagi. Sem dæmi má til að mynda nefna gufusprengingar þegar hraunið kemst í snertingu við snjó og ís svo af verða sprengingar sem þeyta hnullungum hundruð metra.

Þegar haft var samband við lögregluna á Selfossi þá var búist við miklum ferðamannastraumi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×