Fótbolti

Sölvi Geir: Fæ vonandi prósentur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sölvi skorar markið mikilvæga í kvöld.
Sölvi skorar markið mikilvæga í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

„Þetta var mögnuð upplifun og afar sætt," sagði Sölvi Geir Ottesen, hetja FC Kaupmannahafnar, eftir að liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Sölvi skoraði eina markið í 1-0 sigri FCK á norska liðinu Rosenborg í síðari viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppninni. Samanlögð úrslit voru 2-2 en FCK komst áfram á útivallarmarki.

„Það var gríðarlega mikið undir í þessum leik en við hefðum átt að klára hann í fyrri hálfleik. Þá átti við að ég held sautján skot að marki. Við hreinlega völtuðum yfir þá en við vorum klaufar að nýta ekki færin," sagði Sölvi við Vísi.

„Þeir tjölduðu svo öllu til í síðari hálfleik og áttu eitt skot í slána. En við héldum núllinu og gríðarlega mikill léttir og fögnuður í leikslok."

Hann segir ávallt gaman að skora en þetta var reyndar hans fyrsta mark fyrir félagið síðan kom til þess fyrr á árinu.

„Það er ekki verra fyrst markið reyndist svona dýrmætt. Mér skilst að félagið fái 150 milljónir danskra króna (rúmir þrír milljarðar króna) fyrir að komast áfram. Það væri svo sem ekki verra að fá einhverjar prósentur af þessu," sagði hann og hló.

„En aðalmálið er að við erum komnir áfram og við erum gríðarlega stoltir af því og hlökkum til."

Dregið verður í riðlakeppnina á morgun og viðbúið að FCK mæti þar stórliði. „Við viljum samt gera góða hluti í riðlinum og þess vegna komast áfram. Það væri því ágætt að fá eitt gott lið og taka svo bara annað sætið. Það eru spennandi tímar framundan og það ríkir mikil tilhlökkun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×