Skoðun

Venesúela, Kúba… Ísland?

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Grein mín á Pressunni sem bar heitið Venesúela og Kúba fór fyrir brjóstið blaðamanninum Magnúsi Þorláki Lúðvíkssyni og gerði hann hana að umtalsefni á síðum blaðsins í dálknum Frá degi til dags. Í greininni rakti ég ýmislegt sem ríkisstjórnin hefur gert sem er þess eðlis að ætti frekar heima í erlendum fréttum frá þessum löndum heldur en sem fréttir frá Íslandi.

Blaðamaðurinn tilgreindi eitt dæmi sem ég nefndi sem gæti að hans áliti alls ekki átt við Venesúelu og Kúbu en það er þegar íslenski utanríkisráðherrann gekk í að kenna stækkunarstjóra ESB Evrópufræði, þegar hinn síðarnefndi benti Íslendingum á að þeir gætu ekki fengið varanlegar undanþágur frá lögum ESB.

Utanríkisráðherrann okkar fór yfir það með stækkunarstjóranum, þetta væri tóm vitleysa hjá honum. Hann sjálfur vissi betur. Það sem meira var, þetta þótti ekki fréttnæmt hjá íslenskum fjölmiðlum! Það er umhugsunarefni. Er það ekki frétt að stækkunarstjóri ESB veit ekki meira um stækkunarferli ESB en raun ber vitni? Þetta á ekki einungis við stækkunarstjórann heldur alla þá forystumenn sem hafa tjáð sig um þessi mál! Fréttin hlýtur að vera að við Íslendingar, stjórnmálamenn, fræðimenn og fjölmiðlafólk vitum betur en þetta fólk.

Á Kúbu og Venesúela eru fjölmiðlar og háskólasamfélagið nátengd stjórnvöldum og halda að almenningi upplýsingum sem er stjórnvöldum þóknanleg. Ef einhverjir, t.d. útlendingar koma fram með sín sjónarmið sem ekki eru í anda rétttrúnaðarins þá mun enginn samsinna því þvert á móti eru viðkomandi viðhorf eða staðreyndir afgreidd eins og hver önnur þvæla.

Í þessum ríkjum eru fræðimenn á beinu framfæri stjórnvalda og fá dúsur eftir því hversu mikið þeir mæra viðkomandi stjórnvöld. Stjórnvöld, fjölmiðlar og fræðimenn halda því samviskusamlega rétttrúnaðinum að almenningi.

Getur verið að þetta eigi við Ísland?

 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×