Innlent

Samningur um þvinguð mannshvörf enn ekki fullgildur

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International
Tuttugu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa nú fullgilt alþjóðlegan samning um þvinguð mannshvörf. Þvingað mannshvarf á sér stað þegar maður er handtekinn eða rænt fyrir hönd ríkisins. Yfirvöld neita þá að viðkomandi sé í haldi eða leyna dvalarstað hans og firra hann þannig allri lagavernd.

Amnesty International vekur athygli á því að stjornvöld noti þvinguð mannshvörf sem kúgunartæki til að bæla niður andóf og stjórnarandstöðu og til að ofsækja trúarhópa, stjórnmálahreyfingar og fólk af ákveðnum uppruna.

sland undirritaði umræddan samning þann 1. október 2008 en á eftir að fullgilda hann. Íslandsdeild Amnesty International hvetur því íslensk yfirvöld til að fullgilda samninginn hið fyrsta.

Markmið samningsins er að koma í veg fyrir þvinguð mannshvörf, leiða sannleikann í ljós þegar slíkir glæpir eru framdir, refsa þeim sem ábyrgð bera á þvinguðum mannshvörfum og veita fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra skaðabætur.

Amnesty International hefur barist fyrir gerð samningsins í meira en aldarfjórðung og leggja samtökin nú áherslu á að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gerist aðilar að honum og skuldbindi sig til að fara að ákvæðum hans.

Amnesty International segir í tilkynningu að það sé fagnaðarefni að tuttugu ríki hafi nú fullgilt samninginn, en þau eru Albanía, Argentína, Bólivía, Búrkína Fasó, Chile, Kúba, Ekvador , Frakkland, Þýskaland, Hondúras, Írak, Japan, Kasakstan, Malí, Mexíkó, Nígería, Paragvæ, Senegal, Spánn og Úrúgvæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×