Innlent

Sofi Oksanen í viðtali: Frjór jarðvegur til að misnota fólk

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Sofi Oksanen „Það er gömul saga og ný að við aðstæður sem þessar, þegar þjóðfélag verður óstöðugt, myndast frjór jarðvegur fyrir misnotkun á fólki. Eystrasaltslöndin fengu að kenna á því þegar Stalín var að ná völdum og aftur þegar Sovétríkin hrundu.“Fréttablaðið/stefán
Sofi Oksanen „Það er gömul saga og ný að við aðstæður sem þessar, þegar þjóðfélag verður óstöðugt, myndast frjór jarðvegur fyrir misnotkun á fólki. Eystrasaltslöndin fengu að kenna á því þegar Stalín var að ná völdum og aftur þegar Sovétríkin hrundu.“Fréttablaðið/stefán

Finnski rithöfundurinn Sofi Oksanen tekur við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í dag fyrir skáldsöguna Hreinsun. Í samtali við Fréttablaðið segist hún hafa viljað vekja athygli á sögu eistnesku þjóðarinnar undir járnhæl Sovétríkjanna.

Hreinsun fjallar um gamla konu, Aliide, sem kemur að ungri stúlku, Zöru, illa leikinni í garðinum hjá sér á litlum bóndabæ í Eistlandi. Aliide skýtur skjólshúsi yfir stúlkuna og smám saman kemst hún að því að saga þeirra er samfléttuð. Í bókinni er saga þeirra rakin á mismunandi tímum í eistneskri sögu og fyrir lesanda opnast sýn yfir harmsögu Eista á liðinni öld; saga sem er að stórum leyti ókunn í Evrópu.

„Það var meðal annars það sem ég hafði í huga þegar ég skrifaði þessa bók," segir Oksanen. „Samtímasaga Eistlands hefur ekki verið skrifuð inn í sögu Evrópu, heldur hefur hún verið innlimuð í sögu Sovétríkjanna. Sem er alls ekki saga Eista.

Ef hugmyndin um sameinaða Evrópu á að ná fram að ganga verður að brúa bilið milli Austur- og Vestur-Evrópu, sem er enn talsvert, meðal annars vegna þess að saga fyrrverandi Sovétlýðveldanna er lítið sem ekkert þekkt."



Ólíkar konur - áþekk reynsla


Hreinsun er þó ekki aðeins þjóðar­saga, heldur fjallar hún líka um tvær konur af ólíkum kynslóðum; konur sem eru ítrekað beygðar og niðurlægðar en rísa alltaf upp.

„Í rannsóknarvinnunni fyrir bókina las ég mér meðal annars til um kynferðislegt ofbeldi. Þar tók ég meðal annars eftir ákveðnum almennum viðbrögðum, meðal þolenda slíkra ódæðisverka. Það kom mér á óvart því ég bjóst við meiri mun á slíkri upplifun milli þolenda með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn. Bakgrunnurinn virðist hafa lítil áhrif á upplifun eða tilfinningar þolenda kynferðisofbeldis. Þannig kviknaði hugmyndin að því að draga fram líkindin í reynslu þessara tveggja kvenna."

Bókin vekur líka athygli á grimmu hlutskipti ófárra kvenna eftir hrun Sovétríkjanna, þegar Austur-Evrópa varð gróðrarstía mansals. „Það er gömul saga og ný að við aðstæður sem þessar, þegar þjóðfélag verður óstöðugt, myndast frjór jarðvegur fyrir misnotkun á fólki. Eystrasaltslöndin fengu að kenna á því þegar Stalín var að ná völdum og aftur þegar Sovétríkin hrundu. Í stað Rauða hersins kom rússneska mafían."

Uppgjör í Eistlandi

Oksanen er fædd og uppalin í Finnlandi en hefur skrifað tvær skáldsögur um Eistland; Hreinsun og Kýr Stalíns, og hefur hugsað sér að skrifa tvær bækur til viðbótar. Hvers vegna blínir hún svo mikið til Eistlands í skáldskap sínum?

„Saga Eistlands vekur sem stendur mikinn áhuga hjá mér. Sem rithöfundur hef ég haft tækifæri til að fylgjast með þjóðinni endurheimta sjálfstæði sitt um leið og risaveldið sem réði þar lögum og lofum leið undir lok. Þetta eru dramatískari atburðir en flestir upplifa á ævinni."

Oksanen segir að Eistar hafi byrjað að gera upp Sovéttímann á 9. áratugnum, þegar út fóru að koma endurminningabækur sem fjölgaði jafnt og þétt næstu árin. Einnig sé komin fram á sjónarsviðið ný kynslóð sagnfræðinga sem ekki er gegnsýrð af pólitík. Lítið sé hins vegar um sögulegan skáldskap um Sovéttímann. Hreinsun hefur verið gefin út í Eistlandi og var mest selda þýdda skáldsagan þar í landi í fyrra. Oksanen segir gleðilegt hversu vel bókinni hafi verið tekið í Eistlandi en hefur líka orðið vör við gagnrýni á bókina.

„Sumir hafa átt erfitt með að gera greinarmun á sagnfræði og sögulegum skáldskap; átta sig ekki á að söguleg skáldsaga verður aldrei tæmandi sagnfræðileg úttekt á viðfangsefninu."



Byrjaði sem leikrit

Upphaflega var Hreinsun skrifuð sem leikrit, sem sýnt var við miklar vinsældir í Finnlandi árið 2007. Oksanen segist hafa ákveðið að skrifa að skáldsögu upp úr verkinu, meðal annars til að bæta við persónu Ingelar, systur Aliide í verkið.

„Það má skipta endurminningabókum í Eistlandi í þrjá flokka: þeir sem voru fluttir austur, þeir sem flúðu vestur, og þeir sem þurftu að vera um kyrrt. Fæstar endurminningabækurnar eru eftir fólkið sem var um kyrrt og ég vildi því skrifa leikrit um slíka manneskju. Í leikritinu er tilvist systur Aliide, sem var flutt austur, fólgin í fjarveru hennar. En ég fór að velta því fyrir mér hvort ég þyrfti ekki að ljá henni rödd og byrjaði að skrifa einræður fyrir hana. Og áður en langt um leið áttaði ég mig á að ég var að skrifa skáldsögu."



Vinsældirnar komu á óvart

Óhætt er að segja að Hreinsun hafi slegið í gegn á alþjóðlega vísu. Hún sankaði að sér verðlaunum í Finnlandi þegar hún kom út, hefur verið þýdd á fjölda tungumála og í gær var tilkynnt að hún hefði hlotið frönsku Prix Femina Etranger-verðlaunin. Oksanen segir að vinsældir bókarinnar hafi komið sér mjög á óvart.

„Þegar maður skrifar bók um gamla konu sem býr á bóndabæ í Eistlandi á maður ekki beinlínis von á því að slá í gegn, allra síst á erlendum vettvangi." Hún gleðst yfir verðlaununum sem bókin hefur hlotið og möguleikana sem þau veita henni.

„Þetta stuðlar því að vissu starfsöryggi og stækkar mögulega lesendahópinn, sem allir rithöfundar vonast eftir. En fyrst og fremst vona ég þó að verðlaunin komi til með að vekja athygli á finnskum bókmenntum almennt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×