Innlent

Landsvirkjun frestar viðræðum við fjölda fyrirtækja

Atvinnuuppbygging, sem nýtt hefði orku neðri Þjórsár, tefst um eitt til tvö ár vegna ákvörðunar umhverfisráðherra að hafna skipulagi Þjórsárvirkjana, segir forstjóri Landsvirkjunar. Hann segir Landsvirkjun hafa verið í viðræðum við fjölda fyrirtækja en þeim verði öllum frestað núna.

Ellefu ár eru frá því Landsvirkjun hóf frumhönnun virkjananna þriggja og sex ár eru frá því Skipulagsstofnun og þáverandi umhverfisráðherra féllust á framkvæmdirnar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir fyrirtækið hafa lagt í mikla undirbúnings- og hönnunarvinnu enda hafi stór hluti leyfa legið fyrir. Kostnaður sé um það bil 3,7 milljarðar króna sem fyrirtækið hafi lagt í undirbúning þessara virkjana.

Stjórn Landsvirkjunar ákvað fyrir tveimur árum að orku Þjórsárvirkjana yrði ekki ráðstafað til nýrra álvera og hóf í staðinn viðræður við aðila á öðrum sviðum. Sérstaklega voru tilgreind netþjónabú og kísilflöguiðnaður og meðal annars horft til staðsetningar í Þorlákshöfn. Stöð tvö hefur upplýsingar um að á undanförnum mánuðum hafi lifnað mjög yfir óskum erlendra aðila um orkukaup, og geirar eins og matvælaiðnaður og stáliðnaður bæst í hópinn.

Hörður segir Landsvirkjun í viðræðum við þó nokkuð mörg erlend fyrirtæki sem hafi lýst áhuga. Enginn af þeim samningum hafi verið á lokastigi en allir þeir samningar frestist núna. Hann vill ekki skýra frá því í hvernig starfsemi þessir aðilar eru.

Varðandi gagnaver, sem þegar er í smíðum, segir Hörður að Landsvirkjun eigi í kerfinu orku sem dugi í fyrstu áfanga en verði nú að skoða aðra virkjanakosti um framhaldið. En telur hann að sú seinkun, sem nú verður á skipulagsferli Þjórsárvirkjana, geti seinkað annarri atvinnuppbyggingu?

"Já. Hún seinkar þeirri atvinnuuppbyggingu sem hefði byggst á hugsanlegri orku frá neðri Þjórsá. Það gerir það," svarar Hörður. Hann telur erfitt að meta hversu mikil seinkunin verði. "En við teljum að það sé allavega eitt til tvö ár, miðað við þá stöðu sem málið er komið í núna," segir hann. 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×