Fótbolti

Sölvi Geir: Við eigum að fara áfram á móti Rosenborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen. Mynd/Valli
Sölvi Geir Ottesen, íslenski landsliðsmiðvörðurinn hjá danska liðinu FCK, var í viðtali hjá Tipsbladet í Danmörku í dag eftir að ljóst var að FCK Kaupmannahafnarliðið drógst á móti norsku meisturunum í Rosenborg í umspilsleikjum um að komast inn í Meistaradeildina á komandi leiktíð.

„Ég er ánægður með þennan drátt. Rosenborg er með sterkan mannskap en við erum líka með sterkan hóp. Ef við spilum eins og við getum best þá munum við slá út Rosenborg. Það er mitt mat að við séum sigurstranglegri í þessum leikjum og auðvitað þurfum við að spila okkar besta leik til þess að okkur takist það," sagði Sölvi Geir.

FCK Kaupmannahafnarliðið sló út FH-banana í BATE Borisov í síðustu umferð eftir dramatískan 3-2 sigur í seinni leiknum á Parken. FCK komst 2-0 yfir í leiknum en BATE náði að jafna með tveimur mörkum á lokamínútum fyrri hálfleiksins.

„Við misstum einbeitinguna í fimm mínútur á móti BATE og þeir refsuðu okkur fyrir það. Fyrir utan þær mínútur var vörnin okkar í góðu lagi. Það er hinsvegar ljóst að við þurfum að halda fullri einbeitingu allan tímann ef að við ætlum að komast í Meistaradeildina," sagði Sölvi Geir í viðtalinu við Tipsbladet.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×