Innlent

Hyggst reisa hæstu vindmyllu landsins

„Þetta er vindmylla með hámarksgetu upp á 30 kílóvött, miðað við tíu metra vind á sekúndu,“ segir Haraldur Magnússon bóndi sem hyggst reisa rúmlega þrjátíu metra háa vindmyllu við bæ sinn í Belgsholti í Melasveit. Vindmyllan verður líklega sú fyrsta sem skráð verður inn á orkudreifikerfið hér á landi og verður, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst, sú hæsta á landinu. Mastrið sjálft er 25 metrar á hæð en spaðarnir um sex metrar á lengd.

Haraldur stefnir að því að vindmyllan verði komin í notkun í mars en um tvö ár eru síðan hann fór að vinna í henni. „Ég fékk veðurstöð í fimmtugsafmælisgjöf árið 2003 sem skráir allt veðurfar í tölvu. Þá fór ég að hugsa hvort hægt væri að nota vindinn til að búa til orku. Ég tók saman niðurstöðurnar og sendi Orkustofnun, sem fannst þetta álitlegar niðurstöður,“ segir Haraldur. „Ég fékk styrk úr Orkusjóði vorið 2008. Verkefnið fór í smá frost eftir bankahrun en svo fór allt á fullt.“

Haraldur segir að grunnurinn að því að reisa svona vindmyllu sé að notast við rannsóknarniðurstöður á vindstyrk. Hann leitaði á náðir Sigurðar Inga Friðleifssonar, í Orkusetrinu á Akureyri, en hann hefur verið að skoða möguleikann á því að setja upp vindmyllu við Sólheima í Grímsnesi. „Sigurði Inga fannst vindkúrfan hjá mér vera ákjósanleg. Hann benti mér á sænska framleiðandann Hanne­vind í Svíþjóð en það fyrirtæki framleiðir nokkuð hagstæðar vindmyllur að hans sögn. Nú er ég bara að bíða eftir staðfestingu á því hvenær ég fæ vindmylluna afgreidda frá fyrirtækinu og stefni á að koma henni upp í mars.“

Að ýmsu er að huga áður en vindmyllan verður reist. Haraldur þarf meðal annars byggingarleyfi sem hann vonast til að fá í vikunni. Allt stefnir í að vindmyllan hans Haraldar verði sú fyrsta sem framleiði orku sem fari inn á orkudreifingarkerfið. „Það var nú ekki stefnan í fyrstu en ef þessi áform ganga eftir verður hún fyrsta vindmyllan sem framleiðir rafmagn inn á dreifikerfið,“ segir Haraldur. En eitthvað hlýtur vindmyllan að kosta? „Kostnaðurinn við hana er um tíu milljónir með eigin vinnu. En auk styrksins úr Orkusjóði fékk ég framlag úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins sem hefur verið að styrkja smærri bændavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir. Vindmyllan féll í sama flokk og þær,“ segir Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti í Melasveit.

kristjan@frettabladid.is
Vindmyllan Vindmyllan sem Haraldur stefnir á að reisa er framleidd af sænska fyrirtækinu Hannevind og á að geta framleitt allt að 30 kílóvött.Mynd/hannevind



Fleiri fréttir

Sjá meira


×