Innlent

Enginn borgarstjóri í Bústaðakirkju þessa aðventuna

Pálmi segir Jón hafa tekið boðinu með mikilli gleði og vonast til að hann mæti að ári
Pálmi segir Jón hafa tekið boðinu með mikilli gleði og vonast til að hann mæti að ári
Frá því Bústaðakirkja var vígð fyrir 39 árum hefur nýr borgarstjóri verið viðstaddur aðventukvöld í kirkjunni á fyrsta sunnudag aðventu, með örfáum undantekningum. Til stóð að Jón Gnarr myndi halda hefðinni við en eftir veikindi hans nýverið þurfti að fækka verkefnum og var heimsókn á aðventukvöldið eitt af því sem tekið var af dagskrá borgarstjóra.

Séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðakirkju, segist hafa hitt Jón þegar hann tók við sem borgarstjóri og þá boðið honum að mæta á aðventukvöldið í ár. „Hann tók þetta að sér með mikilli gleði. Þetta er hans gamla sóknarkirkja og hann er alinn upp hér nokkrum húsum frá," segir Pálmi.

Eftir glímu Jóns Gnarr við veikindi og vist hans á spítala nýverið var ljóst að létta þurfti á honum og var verkefnum hans því fækkað, að læknisráði. Meðal þess sem lenti undir niðurskurðarhnífnum var heimsóknin í Bústaðakirkju.

Pálmi segir þessa hefð að fá nýjan borgarstjóra til að vera á aðventukvöldi kirkjunnar vera afar skemmtilega og að hún hafi eiginlega skapast alveg óvænt eftir að borgarstjóri Reykjavíkur var þar við messu fyrsta starfsár kirkjunnar. Síðan þá hefur hver nýr borgarstjóri komið í Bústaðakirkju fyrir jólin, að sögn Pálma, ef frá eru talin þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ólafur F. Magnússon.

Pálmi bindur þó vonir við að Jón Gnarr komi næstu jól fyrst hann var vant við látinn þetta árið. „Hann segist vera tilbúinn til að koma á næsta ári ef hann verður enn borgarstjóri," segir Pálmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×