Fótbolti

Barry missir af fyrsta leik Englands á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Barry á æfingu enska landsliðsins.
Gareth Barry á æfingu enska landsliðsins. Nordic Photos / Getty Images

Gareth Barry mun ekki spila með Englandi þegar að liðið mætir Bandaríkjunum á HM á laugardaginn kemur.

Barry meiddist á ökkla í leik með Manchester City í upphafi síðasta mánaðar en batinn hefur verið betri en búist var við.

Hins vegar vill Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, ekki taka neinar áhættur og ætlar ekki að nota hann á laugardaginn.

„Það er búið að segja mér að ég muni ekki spila gegn Bandaríkjunum til að gefa mér meiri tíma," sagði Barry við enska fjölmiðla. „En ég mun æfa á fullu með liðinu strax á morgun [í dag]."

Búist er við því að Steven Gerrard og Frank Lampard verði á miðjunni hjá Englandi á laugardaginn og Joe Cole á vinstri kantinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×