Innlent

Skurðlæknir fær fimm milljónir vegna uppsagnar

Hæstiréttur Íslands dæmdi Landspítalann háskólasjúkrahús (LSH), til þess að greiða skurðlækninum Stefáni Einari Matthíassyni, fimm milljónir króna vegna ólögmætrar uppsagnar árið 2005.

Stefán starfaði sem sérfræðingur á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og rak jafnframt læknastofu utan sjúkrahússins. Hann var ráðinn sem yfirlæknir á í júlí 2002 og ritaði af því tilefni undir tvö skjöl.

Í öðru þeirra var meðal annars kveðið á um að hann myndi hætta stofurekstri utan sjúkrahússins fyrir árslok 2004 svo fremi sem aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi væri þá viðunandi innan veggja LHS að áliti samningsaðila.

Snemma árs 2005 vöktu stjórnendur LHS máls á því við Stefán að hann hætti rekstri læknastofu sinnar, en hann svaraði því til að fyrrgreind skilyrði væri ekki uppfyllt og honum það því óskylt.

Ágreiningur reis á milli aðila sem leiddi til þess að LHS veitti honum áminningu og í kjölfarið var honum sagt upp störfum í nóvember 2005.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í júní 2006 var áminning LHS til Stefáns dæmd ólögmæt. Í kjölfarið leitaði hann eftir því að uppsögnin yrði dregin til baka en því var hafnað.

Hann höfðaði því mál og krafði spítalann um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 139 milljónir krónur, sem svaraði til tekna hans í starfi við sjúkrahúsið í tíu ár og jafnframt um 10 milljónir í miskabætur. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu, enda gæti hann ekki gert ráð fyrir óbreyttum kjörum um ókomna framtíð. Því voru 5 milljónir taldar hæfilegar bætur.

Hæstiréttur hafnaði hinsvegar kröfu um miskabætur þar sem ekki var sýnt fram á ásetning spítalans um að brjóta á honum eða hann beittur einverri misgerð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×