Innlent

Þriðja hrunið er í nánd segir Vilhjálmur

Ekki hægt að sakfella ráðherra fyrir bankahrunið án þess að ríkið verði bótaskylt segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Fréttablaðið/Rósa
Ekki hægt að sakfella ráðherra fyrir bankahrunið án þess að ríkið verði bótaskylt segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Fréttablaðið/Rósa
„Það þarf að hætta að slátra köttum en fara á fullt í að veiða mýs,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og varar við afleiðingum þess að fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir fyrir vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins.

Vilhjámur segir í pistli á heimasíðu SA að ekki sé útilokað að annað hrun verði í fjármálakerfinu ef allt fari á versta veg fyrir fjármálafyrirtækin vegna ólögmætis gengisbundinna lána.

„Þriðja hrunið er ennfremur raunhæfur möguleiki en það gæti gert sjálft ríkið gjaldþrota,“ skrifar Vilhjálmur og bendir á að senn ákveði Alþingi hvort sækja eigi nokkra fyrrverandi ráðherra til saka fyrir vanrækslu. „Vand-séð er hvernig hægt er að sakfella þetta fólk fyrir vanrækslu án þess að ríkið sjálft verði þá bótaskylt vegna afleiðinga meintra misgjörða þeirra.“

Vilhjálmur segir að vera megi „að einhver mikil réttlætisþörf búi að baki áformum um að hafa æru af“ viðkomandi ráðherrum. „En spurningin er hvort þjóðin hafi efni á slíku réttlæti? Er það ekki hún sjálf sem hlýtur þá mestu refsinguna með hugsanlegu gjaldþroti ríkisins?“ skrifar Viljálmur og kveður nær að líta til þjóða sem farið hafi leið sátta og samstöðu til að gera upp erfið mál.

„Alþingismenn þurfa að sjást fyrir í störfum sínum. Það er ekki ráðlegt að svala pólitískum hefndarþorsta sínum með því að setja framtíð ríkisins í óvissu. Því menningarbyltingarkennda ástandi sem ríkt hefur þarf að linna.“ - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×