Handbolti

HK tapaði með fimm mörkum í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson.
Atli Ævar Ingólfsson. Mynd/Stefán
HK tapaði 34-39 í fyrri leik sínum á móti rússneska liðinu Kaustik í Evrópukeppni bikarhafa í handbolta en leikirnir fara báðir fram í Rússlandi um helgina. Rússarnir unnu síðustu þrjár mínúturnar 4-1 og tryggðu sér ágætt forskot fyrir seinni leikinn á morgun.

Kaustik var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 19-17, eftir að hafa náð mest þriggja marka forustu, 15-12. Ólafur Bjarki Ragnarsson hafði skorað 6 mörk í fyrri hálfleik og Bjarki Már Elísson var með fjögur mörk.

Bjarki Már skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og minnkaði muninn í 19-18, Rússarnir svöruðu með tveimur mörkum í röð og náði þriggja marka forustu en HK kom aftur til baka og jafnaði metin í 22-22.

Rússarnir voru skrefinu á undan og náði síðan fjögurra marka forskoti þegar ellefu mínútur voru eftir. Erlingur Richardsson tók þá leikhlé og HK náði að minnka muninn aftur niður í tvö mörk.

Staðan var 35-33 þegar þrjár mínútur voru eftir en HK missti þá mann útaf í tvær mínútum og tapaði lokamínútum 1-4 og þar með leiknum með fimm marka mun.

Atli Ævar Ingólfsson fór á kostum í seinni hálfleiknum og skoraði þá 6 af 9 mörkum sínum en það dugði þó ekki til og HK bíður erfitt verkefni að vinna upp muninn á morgun.

Kaustik-HK 39-34 (19-17)

Mörk HK í leiknum: Atli Ævar Ingólfsson 9, Bjarki Már Elísson 9, Ólafur Bjarki Ragnarsson 8, Daníel Berg Grétarsson 2, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 2, Atli Karl Bachmann 1, Björn Þórsson Björnsson 1, Hákon Hermannsson Bridde 1, Hörður Másson 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×