Innlent

Flugvöllum líklega lokað á morgun

Mynd/Teitur Jónasson
Allar líkur eru á að Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur lokist í fyrramálið vegna öskustróks frá Eyfjallajökli en spáð er suðaustan átt á morgun.

Icelandair hefur ákveðið flýta flugi félagsins til Parísar, London, Kaupmannahafnar og Manchester/Glasgow, Osló/Stokkhólms í fyrramálið, og verður brottför klukkan fimm vegna yfirvofandi lokunar flugvallarins. Öðrum flugum á morgun hefur verið aflýst og ný flug sett upp í staðinn.

Óvissa er um það hvernig flugi Icelandair til og frá landinu verður háttað á næstunni og eru farþegar hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um flugáætlun, komu og brottfarartíma fluganna, m.a. á www.icelandair.is.

Flugi félagsins í fyrramálið frá Boston, New York og Seattle í Bandaríkjunum verður stefnt til Glasgow í Skotlandi og þar verður sett um tengistöð. Síðdegisflugi frá Evrópu til Íslands verður sömuleiðis beint til Glasgow. Til þess að flytja farþega milli áfangastaða félagsins og Íslands verða sett upp flug milli Glasgow og Akureyrar.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að fyrirtækið hefur undanfarna daga unnið að viðbúnaðaráætlun ef til þess kæmi að Keflavíkurflugvelli yrði lokað vegna öskufallsins frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Í undirbúningunum hefur verið lögð áhersla á að halda starfsemi félagsins gangandi, halda opnum flugsamgöngum milli Íslands og umheimsins og veita viðskiptavinum þjónustu. Áhöfnum og öðrum starfsmönnum hefur verið flogið til Bretlands og eru tilbúnir til starfa þegar þörf krefur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×