Fótbolti

Stuðningsmenn ættu að biðja Balotelli afsökunar

Elvar Geir Magnússon skrifar
Balotelli var ekki sáttur á þriðjudaginn.
Balotelli var ekki sáttur á þriðjudaginn.

„Mun hann biðjast afsökunar? Ég veit ekki. Kannski ættu stuðningsmennirnir að biðja hann afsökunar," segir Mino Raiola, umboðsmaður Mario Balotelli hjá Inter.

Balotelli brást ókvæða við þegar stuðningsmenn létu hann heyra það í Meistaradeildarleiknum gegn Barcelona í vikunni. Hann grýtti treyju sinni í jörðina eftir leik.

„Hann getur ekki hafa verið ánægður með það sem hann fékk að heyra frá áhorfendum. Þegar tveir aðilar sem þykja vænt um hvorn annan deila er það ekki alltaf þannig að annar þeirra þurfi að biðjast afsökunar."

„Ég sá enga ástæðu fyrir því að stuðningsmenn áttu að baula á hann. Hann sýndi fín tilþrif eftir að hafa komið inn sem varamaður í leiknum. Svo átti hann misheppnaða sendingu en hefði hún heppnast hefði Inter gætað skorað fjórða markið," segir Raiola.

Spennandi verður að sjá hvernig Jose Mourinho, þjálfari Inter, mun bregðast við þessari hegðun Balotelli en framundan er mikilvægur leikur gegn Atalanta um helgina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×