Fótbolti

Gylfi fékk ekki að spreyta sig í tapi á móti Bayern Munchen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralf Rangnick, þjálfari Hoffenheim, vildi ekki nota Gylfa í kvöld.
Ralf Rangnick, þjálfari Hoffenheim, vildi ekki nota Gylfa í kvöld. Mynd/Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson fékk ekki að spila með Hoffenheim í kvöld þegar liðið tapaði 1-2 á heimavelli á móti Þýskalandsmeisturunum í Bayern Munchen. Sigurmark Bayern kom í uppbótartíma.

Gylfi átti frábæra innkomu um síðustu helgi þegar hann skoraði beint úr aukspyrnu nokkrum sekúndum eftir að hafa komið inn á sem varamaður en þrátt fyrir það voru ekki not fyrir hann í leiknum í kvöld.

Hoffenheim fékk draumabyrjun í leiknum þegar Vedad Ibisevic kom þeim í 1-0 á fyrstu mínútu leiksins. Bayern var meira með boltann það sem eftir lifði hálfleiksins en Hoffenheim fékk engu að síður tvö góð færi til viðbótar til þess að bæta við mörkum.

Thomas Müller jafnaði leikinn á 62. mínútu eftir undirbúning Franck Ribery en þetta var fyrsta deildarmark Bayern í 330 mínútur. Ribery fór meiddur af velli í kjölfarið.

Það var síðan miðvörðurinn Daniel van Buyten sem tryggði Bayern 2-1 sigur með marki í uppbótartíma eftir skallasendingu frá Ivica Olic og fyrirgjöf frá Hamit Altintop.

Bayern Munchen er í 7. sæti deildarinnar með 8 stig út úr fyrstu 5 leikjum sínum en Hoffenheim er í 2. sætinu með 10 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×