Fótbolti

Ferguson: Engin pressa á læknateyminu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rooney fer af velli í leiknum í gær.
Rooney fer af velli í leiknum í gær.

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, segist alls ekki hafa beitt læknateymi félagsins þrýstingi svo þeir myndu úrskurða Wayne Rooney leikhæfan í gær.

Ferguson var sjálfur búinn að afskrifa þáttöku Rooney í leiknum en öllum að óvörum var Rooney í byrjunarliðinu í gær. Þá var aðeins liðin vika frá fyrri leik liðanna þar sem Rooney meiddist. Átti hann þá upphaflega að vera frá í þrjár vikur.

Þessi áhætta Ferguson gekk framan af en sprakk svo í andlitið á honum því Rooney snéri sig aftur á ökklanum og Man. Utd komst ekki áfram í Meistaradeildinni.

„Ég þvinga læknateymið aldrei til neins. Þeir vinna erfitt starf og þetta fólk þarf að taka réttar ákvarðanir með heilsufar leikmanna. Ákvörðun þeirra í gær var rétt því þeir sáu ekkert að því að Rooney spilaði," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×