Innlent

Georg Bjarnfreðarson sverti ímynd hjólreiða

Veggspjald Samtaka um bíllausan lífsstíl. Myndirnar voru teknar við Melhaga í Reykjavík í sumar.
Veggspjald Samtaka um bíllausan lífsstíl. Myndirnar voru teknar við Melhaga í Reykjavík í sumar.
Jón Gnarr borgarstjóri hefur beðist afsökunar á þeim ímyndarskaða sem hjólreiðar kunna að hafa orðið fyrir þegar Jón ákvað að láta Georg Bjarnfreðarson fara leiða sinna á reiðhjóli.

Jón gerði persónu Georgs ódauðlega í Vakta-seríunum sem sýndar voru á Stöð 2. Að sögn Jóns var ákveðið að Georg ferðaðist um á hjóli því hjólreiðar væru gjarnan taldar „nördalegar." Jóni sjálfum finnst hjólreiðar hins vegar mjög töff.

Gísli Marteinn Baldursson greinir frá þessu á vefsíðu sinni. Þar skrifar hann um Samgönguviku sem Reykjavíkurborg stendur fyrir en Gísli hefur verið ötull talsmaður þess að hjólreiðar séu þægilegur ferðamáti.

Á málþinginu Myndun borgar sem haldið var í Hafnarhúsi síðasta föstudag hélt Jón erindi þar sem hann lýsti reynslu sinni af hjólreiðum. Jón hefur mikið hjólað um Reykjavíkurborg og þegar hann bjó í Grafarvogi hjólaði hann reglulega niður á Flókagötu þar sem hann starfaði.

Að sögn Gísla gerði Jón mögulegan ímyndarskaða hjólreiða að umtalsefni við annað tækifæri á Samgönguvikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×