Tíska og hönnun

Heilluð af Indlandi

Una Hlín Kristjánsdóttir tekur þátt í tískuvikunnu í New York. Hönnun hennar hefur slegið rækilega í gegn undanfarið.fréttablaðið/anton
Una Hlín Kristjánsdóttir tekur þátt í tískuvikunnu í New York. Hönnun hennar hefur slegið rækilega í gegn undanfarið.fréttablaðið/anton

Íslensk hönnun hefur slegið í gegn að undanförnu og íslenskir hönnuðir gerðu góða hluti á tískuvikunni í Kaupmannahöfn. Una Hlín Kristjánsdóttir fékk meðal annars boð á tískuvikuna í New York.

Fatahönnuðurinn Una Hlín Kristjánsdóttir stofnaði merkið Royal Extreme fyrr á árinu og hafa viðtökurnar verið gríðarlega góðar. Una Hlín sótti meðal annars tískuvikuna í Kaupmannahöfn í ágúst og fékk nýverið boð á tískuvikuna í New York sem hefst þann 9. september næstkomandi.

„Ég komst í samband við nýtt íslenskt fyrirtæki sem heitir Designers Market, en markmið þess er að koma íslenskum hönnuðum á framfæri í Bandaríkjunum. Þau komu mér í samband við fyrirtækið Nordic New York, sem valdi fjögur tískumerki frá Norðurlöndunum til að sýna á tískuvikunni og ég var þar á meðal," útskýrir Una Hlín sem heldur til New York þann 11. september þar sem hún verður bæði með bás á sölusýningunni og tískusýningu.

mynd/Oddvar

Una Hlín var á meðal þeirra íslensku hönnuða sem tóku þátt í nýyfirstaðinni tískuviku í Kaupmannahöfn og segir hún það að mestu hafa gengið vel. Una Hlín flaug beint til Danmerkur frá Indlandi þar sem hún hafði dvalið í nokkrar vikur á meðan hún undirbjó næstu línu Royal Extreme.

Aðspurð segist Una Hlín hafa heillast mikið af Indlandi og segir dvölina þar hafa veitt sér mikinn innblástur. „Nýja línan átti að innihalda um sextíu hluti, en endaði á því að innihalda yfir áttatíu hluti," segir Una Hlín og hlær. „Ég varð svo heilluð af efnunum og litunum sem ég sá á Indlandi að ég bætti við línuna." Ný Royal Extreme verslun opnar þann 20. september auk þess sem sérstök vefverslun fer í gagnið sama dag. Hægt er að skoða hönnun Unu Hlínar á vefsíðunni beroyalextreme.com.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.