Innlent

Íslensk þjóð ekki reiðubúin fyrir blessun Guðs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, segir að íslensk þjóð sé ekki risin á fætur.
Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, segir að íslensk þjóð sé ekki risin á fætur. vísir/Stefán
„Það er þannig með Drottinlega blessun að maður verður að þiggja hana standandi. Íslensk þjóð er ekki risin á fætur," segir sr. Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, aðspurður um það hvort Guð hafi blessað Ísland.

Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, bað almættið um þessa blessun þegar að hann tilkynnti að hann myndi setja neyðarlög til að bregðast við yfirvofandi hruni íslenska bankakerfisins fyrir nákvæmlega tveimur árum. Síðan þá hefur gengið á með stjórnarskiptum, eldgosum og kröftugum mótmælum. Á hinn bóginn hafa Íslendingar orðið bronsverðlaunahafar á EM í handknattleik og hreppt annað sætið í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Það hefur því gengið á með ýmsu.

Vísir hafði einnig samband við Biskupsstofu til að freista þess að fá svar við þeirri spurningu hvort Guð hafi blessað Ísland. Þau svör fengust að Karl Sigurbjörnsson biskup væri staddur erlendis.

Spurningin um aðkomu Guðs að endurreisn Íslands er ekki einungis guðfræðilegs eðlis. Klukkan þrjú í dag fer fram málfundur á vegum Félags atvinnurekenda sem ber yfirskriftina „Blessaði Guð Ísland?" Þar mun Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi ritstjóri, auk annarra reyna að svara þessari spurningu. Þorsteinn Pálsson mun fjalla um pólitískar og hugmyndafræðilegar forsendur endurreisnar Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×