Innlent

Norðmenn sjái um olíuleit fyrir Íslendinga

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson.

Þingflokksformaður framsóknarmanna vill að Íslendingar hætti sjálfir að standa í olíuleit en semji í staðinn við Norðmenn um að annast verkefnið.

Olíuleitarútboð Íslendinga á Drekasvæðinu var rætt í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, kvaðst aldrei hafa skilið afhverju Íslendingar væru að þessu brölti:

"Við eigum hreinlega að semja við Norðmenn um að þeir sjái um þetta fyrir okkur. Finnist þarna olía, finnist þarna gas, eða eitthvað vinnanlegt, þá fá þeir hluta af því og við hluta," sagði Gunnar Bragi.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra taldi ekki rétt að semja við Norðmenn um að þeir sæju um verkefnið fyrir Íslendinga. Hún minnti á að þegar væru til staðar samningar um gagnkvæma hlutdeild hvorrar þjóðar í lögsögu hinnar á Jan Mayen-hryggnum. Þá væri víðtækt samráð milli þjóðanna um olíuleitina þar.

Katrín viðurkenndi að Norðmenn væru reynslurík olíuþjóð en Íslendingar algerir nýgræðingar. Þessvegna væri það gott að Íslendingar héldust í hendur við það sem Norðmenn væru að gera þarna.

"Og það hjálpar okkur núna, í næsta útboði, tel ég, að Norðmenn séu að setja svona skýran fókus á þetta svæði, vegna þess að það hjálpar okkur í okkar útboði í ágúst næstkomandi, tel ég," sagði Katrín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×