Innlent

Varað við vafasömum humarsölumönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Humarhúsið.
Humarhúsið.
Óprúttnir aðilar brutust inn á veitingastaðinn Humarhúsið í nótt og stálu þaðan nærri hundrað kílóum af humri og dýru áfengi. Ottó Magnússon, annar eigenda Humarhússins, sagði að um sex til átta kassar af humri hefðu verið teknir og vegur hver kassi um 12 kíló. Fram kemur í samtali við Ottó á vefnum freisting.is að þjófurinn hafi gefið sér góðan tíma, en hann var að frá klukkan hálffimm til hálfsex í nótt. Þar kemur líka fram að humarinn var í kössum merktum VSV (Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum).

Ottó segir í samtali við Vísi að mennirnir hafi líka tekið töluvert af áfengi. „Þeir taka náttúrlega bara það dýra," segir Ottó. Hann segist ekki vera búinn að telja það saman hvað tjónið var mikið. Það hlaupi á hundruðum þúsunda. „Menn eru helvíti kræfir. Við erum með myndavélakerfi og allt. Þeir eru bara með grímur," segir Ottó. Mennirnir séu óþekkjanlegir vegna grímanna. Ottó segir að búið sé að kæra málið til lögreglunnar og afhenda USB - tölvulykil með öllum myndum sem náðust á öryggismyndavélarnar. „Það þarf að loka þessa skratta inni. Þetta eru sömu gauranir og eru að ganga í húsin hérna í kring og brjóta og bramla," segir hann.

Þeir sem kunna að hafa orðið varir við vafasama sölumenn með humar merktan VSV ættu að hafa samband við Ottó í síma 8636303.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×