Fótbolti

Iniesta, Xavi og Messi í þremur efstu sætunum í kjöri FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrés Iniesta með heimsbikarinn.
Andrés Iniesta með heimsbikarinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona-leikmennirnir Andres Iniesta, Xavi Hernandez og Lionel Messi urðu í þremur efstu sætunum í kjöri FIFA á besta knattspyrnumanni heims en það var tilkynnt í dag hvaða þrír leikmenn koma til greina þegar verðlaunin verða afhent í janúar.

Iniesta og Xavi spiluðu stórt hlutverk þegar Spánn varð heimsmeistari í fyrsta skipti á HM í Suður-Afríku en Messi fór á kostum með Barcelona-liðinu og hefur skorað yfir 50 mörk á þessu ári.

FIFA og franska blaðið France Football standa nú saman að kjöri á besta leikmanni heims en þau kusu áður sitt í hvoru lagi. Lionel Messi fékk bæði verðlaunin á síðasta ári en nú heita verðlaunin Gullbolti FIFA.

Jose Mourinho, Vicente del Bosque og Pep Guardiola eru tilnefndir í kjörinu á besta þjálfara ársins. Mourinho vann þrefalt með Inter á Ítalíu, del Bosque gerði Spán að heimsmeisturum og Guardiola gerði flotta hluti með Barcelona-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×