Innlent

Icesave-niðurstaða vonandi fyrir lok vikunnar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisráðherra segir að aðeins standi tvö til þrjú atriði út af í samningaviðræðum um Icesave. Þegar það verði klárað verði samningsdrög kynnt fyrir utanríkismálanefnd og gæti það orðið í lok þessarar viku. Af þessum sökum verður áliti ESA ekki svarað.

Samninganefnd Íslands undir forystu bandaríska lögmannsins Lee Buchheits er enn að störfum en drög að helstu atriðum í samkomulagi við Breta og Hollendinga liggja fyrir. Eins og fréttastofa greindi frá um helgina eru meðalvextir í drögunum 2,78 prósent sem eru umtalsvert lægri en vextir Svavars-nefndarinnar sem voru 5,55 prósent.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru drögin, sem nú liggja fyrir, kynnt þannig að þegar búið væri að gera ráð fyrir þeim 20 milljörðum króna sem eru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og nýjustu upplýsingum um eignir þrotabús Landsbankans væru þetta 0-50 milljarðar króna sem gætu lent á ríkissjóði.

Samkvæmt þessum drögum eru vextirnir á þessum samningum um 100 milljörðuma króna lægri en í samningum Svavars-nefndarinnar en samningar þeirrar nefndar í breyttri mynd voru kolfelldir af íslensku þjóðinni í atkvæðagreiðslu í mars með 98 prósent greiddra atkvæða.

Þríþætt áhætta af nýjum samningum

Samkvæmt heimildum fréttastofu er áhættan af nýjum samningum þríþætt frá sjónarhorni þeirra sem fengið hafa kynningu á drögunum. Í fyrsta lagi er það gengi íslensku krónunnar og þróun þess. Þá eru það endurheimtur í þrotabúið, en mjög varfærin spá slitastjórnar Landsbankans gerir ráð fyrir 90 prósent endurheimtum svo menn hafa ekki miklar áhyggjur af þessu. Í þriðja lagi er það svo áhættan af dómsmálum, en í drögum að nýjum samningum er ákvæði þess efnis að Bretar og Hollendingar muni ekki láta reyna á gildi neyðarlaganna fyrir dómi og meinta mismunun vegna þeirra.

Samninganefndirnar eru enn að störfum en mjög fá atriði eru ófrágengin. Fyrir tveimur vikum síðan voru drög um helstu samkomulagsatriði kynnt fyrir stjórn Viðskiptaráðs Íslands. Fréttir af þessu varð tilefni umræðna á Alþingi í dag.

Framvindan kynnt „aðilum út í bæ"

„Kannast hæstvirtur forsætisráðherra við það á vegum ríkisstjórnarinnar sé verið að kynna framvindu þeirra viðræðna fyrir aðilum út í bæ á sama tíma og látið er undir höfuð leggjast að kynna málið fyrir þingnefndum?" spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í fyrirspurn til Jóhönnu Sigurðardóttur.

Og forsætisráðherra svaraði: „Ég býst við því eins og háttvirtur þingmaður að fljótlega dragi til tíðina hvað varðar Icesave-málið. Og vonandi getur það gerst í þessari viku og þá verður málið, þegar það liggur fyrir niðurstaða og háttvirtur þingmaður veit að það eru tvö til þrjú atriði sem út af standa, og þá verður málið kynnt fyrir utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

Bjarni spurði þá aftur og kallaði þá eftir fundum í utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd, fyrst tilefni væri til að ræða þetta „út í bæ" eins og hann orðaði það. Forsætisráðherra staðfesti síðan í þinginu í dag að drög að nýjum samningum lægju fyrir. „Eins og ég skil málið þá hefur málið verið rætt af fulltrúa stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni inni í þingflokkunum. Þá er ég að tala um stjórnarandstöðuþingflokkunum. Ef það er rétt þá vita allir þingmenn hvað í þessum drögum stendur," sagði Jóhanna.

Þá kom fram í þinginu í dag að áliti ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA yrði ekki svarað, en fresturinn til að svara því rennur út á morgun. Ástæðan er sú að drög að nýjum samningum liggja fyrir.




Tengdar fréttir

Icesave-drög: 0-50 milljarðar á ríkið

Drög að meginatriðum nýs Icesave-samkomulags gera ráð fyrir að kostnaður sem lendi á ríkissjóði verði á bilinu 0-50 milljarðar króna. Drögin að helstu atriðum sem náðst hefur samkomulag um, eins og vaxtaprósentu, voru kynnt í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og hafa verið kynnt forystumönnum Samtaka atvinnulífsins. Samninganefndir eru enn að störfum.

Svarbréfið til ESA fer ekki í póst á morgun

Íslendingar munu ekki svara ESA, Eftirlitsstofnun EFTA vegna Icesave málsins á tilskyldum tíma. Frestur til að senda svör rennur út á miðnætti á morgun og sagði Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra að svörin verði ekki send fyrir þann tíma.

Icesave-frétt vekur athygli

Frétt Stöðvar 2 um að Icesave samningur væri hugsanlega í sjónmáli, og að drög að honum hefðu verið kynnt stjórnarandstöðunni, hefur vakið athygli víða um heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×