Innlent

„Þetta getur komið fyrir hvern sem er"

Karen Kjartansdóttir skrifar

Fimmtán ára drengur sem misst nær alla sjón og heyrn og þarf auk þess að notast við hjólastól vill ekki að fólk tali fyrir sig ef hann hefur ekki beðið um aðstoð að fyrra bragði. „Þetta getur komið fyrir hvern sem er," segir Tryggvi Jón Jónatansson en rætt var við hann og móður hans í þættinum Ísland í dag fyrr í kvöld.

Hvorki Akureyrarbæ né Tryggingastofnun þykir ástæða til að styrkja fjölskyldu Tryggva Jóns í að breyta heimilinu þannig að hann geti komist á milli herbergja í hjólastólnum.

Í kring um fimm ára aldur fór móðir hans að taka eftir heyrnarskerðingu hjá honum. Hún fór með hann í skoðun en ekkert fannst athugavert við heyrn hans. Áfram bar þó á því að talað mál skilaði sér illa til hans og strax við upphaf grunnskólagöngu hans fara að berast kvartanir frá kennurum um að hann fari illa eftir fyrirmælum. Tryggvi Jón fékk að heyra að hann væri óþekkur og sárnaði mjög því hann var góður námsmaður og vildi standa sig. Þegar hann var níu ára fór hann loks í heilastofnsmælingu og kom þá í ljós að talað mál skilaði sér ekki sem skyldi til hans. Síðan þá hefur þó margt fleira dunið yfir, hann missti heyrnina alveg, lærði táknmál en missti þá nær alla sjón eða um 98 prósent. Hann reyndi þó alltaf að vera hraustur en í ágúst fór hann svo í svæfingu og hefur hann glímt við svo mikið jafnvægisleysi síðan og hefur því þurft að nota hjólastól frá því þá.

Vill búa heima hjá sér

Eins og önnur börn vill Tryggvi Jón fá að búa heima hjá sér, reyndar er það honum sérstaklega mikilvægt þar sem hann hvorki sér né heyrir og er því mikilvægt að vera í aðstæðum sem hann þekkir. Það er þó ekki einfalt mál.



„Það sem þarf náttúrulega fyrst og fremst að gera er að laga baðherbergið þar sem að Tryggvi hefur ekki komist í bað heima hjá sér síðan í ágúst. Það er algjörlega óviðunandi að þurfa að fara með hann út í bæ til að koma honum í bað. Síðan þarf að breikka allar hurðir svo hann geti notað þann hjólastól sem hentar hans stærð. Við erum með hann í hjólastjól sem er raun og veru of lítill fyrir hann bara til að koma honum á milli herbergja," segir Ásta Reynisdóttir, móðir Tryggva Jóns.

Í þættinum var rætt við Tryggva Jón í gegnum tölvu en hann getur enn greint mjög stóra stafi á skjá. Tryggvi Jón er eldklár strákur með áhuga á náttúrufræði og íþróttum og með mikið skap. Hægt er horfa á viðtalið við mæðginin hér.

Lífið

Þótt lífið reyni mjög á Tryggva má glögglega heyra í þessu ljóði sem hann samdi í október hve honum þykir vænt um að fá að vera til.

Lífið

Ég lifi fyrir mig

Þú lifir fyrir þig

Maður lifir fyrir sjálfan sig og saknar hinna.

Ég elska að vera til

Ég elska að vera ég

Ég elska hver ég er

Ég elska að vera til í þessum stóra heimi.

Þeir sem vilja styrkja Tryggva Jón og fjölskyldu hans er bent á eftirfarandi reikning sem er í nafni hans:

kt. 150895-2869

0162-15-383629

Styrktarsíða Tryggva Jóns á samskiptavefnum Facebook.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×