Innlent

Inspired By Iceland tilnefnd til virtra verðlauna

Inspired By Iceland hefur vakið mikla athygli en herferðin er tilnefnd í tveimur flokkum hjá European Exellence Awards.
Inspired By Iceland hefur vakið mikla athygli en herferðin er tilnefnd í tveimur flokkum hjá European Exellence Awards.
Ein umfangsmesta og umtalaðasta auglýsingaherferð sem ráðist hefur verið í hér á landi, Inspired by Iceland, er tilnefnd til tveggja verðlauna á einni glæsilegustu auglýsingahátíð Evrópu, European Exellence Awards. Verðlaunin verða veitt á fimmtudaginn við hátíðlega athöfn í Prag.

Inspired By Iceland er tilnefnd í flokki bestu herferða Norðurlandanna og keppir þar við risa á borð við Coca Cola. Auk þess er hún tilnefnd í flokknum krísu-stjórnun en þar er að finna herferðir sem leitast við að lappa upp á eða bjarga löskuðum ímyndum hjá stórfyrirtækjum. Keppinautar Íslands í þeim flokki eru meðal annars hergagnafyrirtækið BAE og bílarisinn Saab.

„Í ljósi alls þess sem á undan er gengið þá erum við mjög ánægð og þetta er mikill heiður fyrir okkur," segir Atli Freyr Sveinsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, en hún var leiðandi aðili í skipulagningu herferðarinnar sem var ýtt úr vör þegar eldgosið í Eyjafjallajökli lamaði flugsamgöngur um Evrópu.

Allt kapp var lagt á að bjarga íslenskum ferðamannaiðnaði og lögðu stjörnur á borð við Eric Clapton, Viggo Mortensen og Yoko Ono lóð sitt á vogarskálarnar. Flaggskipið var heimasíðan InspiredbyIceland.com en samkvæmt skýrslu sem var unnin um herferðina er talið að gestir hennar nemi í kringum þremur milljónum og enn þann dag í dag heimsækja hana sjö þúsund gestir á hverjum degi.

Atli Freyr er framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar sem var einn skipuleggjenda herferðarinnar.
Atli segir keppnina vera einstaka, hún sé ekki bara hönnunarkeppni heldur sé einnig verið að verðlauna fyrir framúrskarandi árangur á sviði boðskipta og samskipta, eitthvað sem Inspired By Iceland gerði mikið út á.

„Mörgum fannst 700 milljónir mikill peningur og hann er það á íslenskan mælikvarða. En ekki á heimsmælikvarða. Kanaríeyjar fóru til að mynda í herferð á svipuðum tíma og eyddu í hana fjórum milljörðum og Queensland í Ástralíu fór í svipaða herferð og notaði til þess tuttugu milljarða."

Atli segir að þeir hafi þurft að reiða sig á aðra hluti eins og netið, og þar sannaðist rækilega gildi Facebook, Twitter og bloggsins við að breiða út boðskapinn. Atli ætlar sjálfur að vera viðstaddur ásamt öðrum samstarfsfélaga sínum. Hann er hóflega bjartsýnn á sigur. „Það er valið úr fimmtán hundruð umsóknum og það er mjög góð viðurkenning að vera meðal fimm bestu."

freyrgigja@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×