Innlent

Segja ríkisstjórnina gera grín að þjóðinni

Sjálfstæðismenn á Alþingi sögðu ríkisstjórnina gera grín að þjóðinni með atvinnumálatillögum sínum á Suðurnesjum. Það eina væri hermangarasafn.

Ráðherrarnir voru vart komnir til baka af Suðurnesjum þegar þeir fengu að heyra það á Alþingi.

"Loksins þegar ríkisstjórnin mætir til fundar," sagði sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson, þá er niðurstaðan: "Jú, það á að setja á stofn safn; hermangarasafn. Ef eitthvað er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn, þá eru það þessar fréttir sem komu fram í morgun."

Flokksbróðir hans, Jón Gunnarsson, sagði að þetta væri eina marktæka niðurstaðan sem hefði komið fram á fundinum á Suðurnesjum; að opna herminjasafn.

"Það verður mikil framlegð af þeirri framkvæmd," sagði Jón.

Á sama tíma væri verið að skera niður framlög á fjárlögum til safna á landinu.

"Það er auðvitað verið að gera grín að þjóðinni," sagði þingmaðurinn.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði að þingmaðurinn hefði átt að hlusta á fólkið sem ríkisstjórnin talaði við suður með sjó í morgun.

"Við erum að hefja mjög mikilvægt samráð um uppbyggingu atvinnu, um uppbyggingu og styrkingu innviða suður með sjó, og ég bið háttvirtan þingmann að gera ekki lítið úr því hér, vegna þess að þetta er samstarf við heimamenn. Og hann ætti að hlusta á þá, einu sinni," sagði Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×