Innlent

Enginn tilgangur með kæru

Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson
„Hann getur auðvitað kært konurnar fyrir rangar sakagiftir, en það hefur engan tilgang,“ segir Brynjar Níelsson lögfræðingur. Gunnar Þorsteinsson leitaði til Brynjars um ráð vegna ásakana um kynferðislega áreitni. „Konurnar eru að lýsa upplifun sinni á löngu liðnum atburðum, sem verða ekki upplýstir með góðu móti í dag.“

Brynjar segir engin góð úrræði séu fyrir Gunnar og hver sem er geti lent í að vera borinn sökum og málið eigi rætur að rekja til deilna innan Krossins.

„Þetta eru líka óljósar ásakanir,“ segir Brynjar. „Sumar, þó sannar gætu verið, eru ekki endilega refsiverðar. Mér finnst ógeðfellt að ásaka mann, sem getur ekki varið sig, 25 árum síðar.“ Brynjar segir framsetningu ásakananna gera frásagnir kvennanna tortryggilegar.

„Ef það er brotið gegn þér þá tekurðu annaðhvort ákvörðun um að láta kyrrt liggja eða kæra. Þær voru nú engin smábörn þegar þetta átti að hafa átt sér stað,“ segir Brynjar. Hann bendir á að þær ásakanir sem Gunnar hefur orðið fyrir, svo sem þukl, káf, faðmlög og kossar teljist vart til alvarlegra kynferðisbrota. „Lýsingar benda ekki til þess að þetta séu mjög alvarleg brot. Það fer vissulega eftir aðstæðum, en almennt séð teljast þetta til vægustu gerðar kynferðisbrota ef þau teljast það á annað borð.“ - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×