Innlent

Borða þar sem Bill Clinton borðar

Myndin fræga af Bill Clinton og Maríu Einarsdóttur pylsusala eða Mæju eins og hún er kölluð.Fréttablaðið/GVA
Myndin fræga af Bill Clinton og Maríu Einarsdóttur pylsusala eða Mæju eins og hún er kölluð.Fréttablaðið/GVA

Bandaríska dagblaðið New York Times birti á mánudag frétt um matsölustaði sem slegið hafa í gegn í kjölfar þess að Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi borðað þar. Meðal staðanna sem teknir eru fyrir í fréttinni er Bæjarins bestu.

Í fréttinni er minnst á matsölustaði í Nýju-Delí, Madríd, London, Berlín, Peking, New York, Prag og Washington auk Reykjavíkur en svo virðist sem fólk víða um heim sé sérlega sólgið í að borða á stöðum sem Clinton hefur heimsótt. New York Times birtu með fréttinni myndina þekktu af Clinton og Maríu Einarsdóttur pylsusala sem Gunnar V. Andrésson ljósmyndari tók þegar Clinton heimsótti Ísland árið 2004.

Gunnar segir það ekki gerast á hverjum degi að stórblað á borð við New York Times birti mynd eftir Íslending og segist ánægður með myndina.

Um tilurð myndarinnar segir hann: „Ég man að ég hafði fylgt Clinton eftir um miðbæinn þennan dag. Þegar hann svo kom að Bæjarins bestu kallaði ég til elskulegu konunnar sem vinnur í vagninum að bjóða honum pylsu. Hún kallaði þá á móti: „Best hot dog in the world!“ Við það snarstoppaði Clinton, leit á mig og sagði í spurnartón: „Why not?“ Hann gekk síðan brosandi rakleiðis að pylsuvaginum og virtist bara nokkuð sáttur með pylsuna.“- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×