Atletico Madrid mætir Fulham í úrslitum Evrópudeildar UEFA. Það varð ljóst eftir framlengdan leik Atletico og Liverpool í kvöld. Liverpool vann leikinn, 2-1, en Atletico fer í úrslit á útivallarmarkinu.
Fyrri leikur liðanna fór 1-0 fyrir Atletico en Liverpool var búið að jafna rimmuna fyrir hlé en Ítalinn Alberto Aquilani kom Liverpool yfir mínútu fyrir hlé.
Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og því varð að grípa til framlengingar.
Yossi Benayoun skoraði á fimmtu mínútu framlengingar og flest benti til þess að Liverpool væri á leið í úrslit.
Aðeins sjö mínútum síðar skoraði Diego Forlan fyrir Atletico og það mark þýddi að spænska liðið var komið áfram en Liverpool þurfti að skora á nýjan leik.
Það gekk ekki og Evrópudraumur Liverpool er því endanlega á enda. Liðið vinnur engan titil í ár.